Erlent

Vilja ólmir friðarferlið af stað

Palestínskir ráðamenn vilja ólmir halda áfram á braut friðar eftir fráfall Jassirs Arafats í vikunni. Stefnt er að kosningu nýs forseta innan tíðar og vilja leiðtogar Palestínumanna að friðarvegvísirinn verði endurreistur þegar í stað. Greftrunarstaður Jassirs Arafat í Ramalla er þegar orðinn áfangastaður pílagríma sem syrgja hann. Æsingin sem einkenndi jarðsetninguna í gær vék í dag fyrir tárum karla og kvenna. Meðal forystumanna Palestínumanna var þo greinilegt að þeir töldu rétt að stíga næsta skref og velja eftirmann Arafats, nýjan forseta Palestínu. Ahmed Qureia, forsætisráðherra Palestínu, segir að kosningar verði haldnar innan tveggja vikna. Og friðarumleitanir eru þeim ofarlega í huga, enda telja margir að fráfall Arafats geti liðkað fyrir nýjum viðræðum. Nabil Shaath, utanríkisráðherra Palestínu, er þó á því að grundvöllur friðarferlisins sé nú þegar til staðar. Hann segir að palestínskt ríki til frambúðar verði að verða að veruleika fyrir árslok árið 2005 og Bandaríkjamenn verði að styðja það, vilji þeir á annað borð sjá frið í Mið-Austurlöndum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×