Erlent

Harmleikur í Fallujah

Mannlegur harmleikur blasir við í borginni Fallujah í Írak. Þrátt fyrir yfirlýsingar um að bardögum þar sé lokið heldur sprenguregnið áfram og óöldin breiðist út. Þó að hjálparsamtök bíði við borgarmörk Fallujah með vistir og neyðarbirgðir kemur það íbúum borgarinnar að litlu gagni. Árásir og skærur halda þar áfram og því leyfa bandarískir hermenn ekki hjálparstarfsmönnum að fara inn í borgina. Því er óttast að fólk svelti þar heilu hungri. Heilbrigðisástandið er afar slæmt, en hermt er að lík liggi eins og hráviði úti um allt og ekki sé unnt að safna þeim saman. Talsmenn Bandaríkjahers lýstu því yfir síðdegis að engrar mannúðaraðstoðar væri þörf í borginni, því að það væru engir óbreyttir borgarar eftir. Slasaðir yrðu færðir út fyrir borgarmörk og þar mætti sinna þeim. Yfirlýsing Johns Sattlers, hershöfðingja, um ástandið í Fallujah, virðist þversagnakennd. Hann segir að borginni hafi verið náð úr höndum skæruliða, en enn sé þó barist á víð og dreif og menn mætist víða einn á einn, upp á líf og dauða. Suður af Fallujah hafa breskir hermenn það verkefni að stöðva skæruliða á flótta, og hafa fjórir ungir hermenn fallið og tólf særst við þann starfa. Skæruliðarnir virðast sleppa þrátt fyrir þetta, einkum til norðurs, þar sem þeir hafa náð nokkrum borgum á sitt vald. Einnig voru gerðar árásir á olíuleiðslur með þeim afleiðingum að um átta hundruð og fimmtíu þúsund tunnur fara til spillis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×