Erlent

Heill heilsu eftir sjúkrahússdvöl

Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, segist vera heill heilsu eftir að hafa gengist undir rannsóknir á sjúkrahúsi í Washington í fyrradag. Cheney skráði sig sjálfur inn á sjúkrahúsið eftir að hafa átt erfitt með andardrátt. Ákváðu læknar að kanna líkamsástand varaforetans í þaula til að hafa vaðið fyrir neðan sig. Cheney, sem er 63 ára, hefur fjórum sinnum fengið hjartaáfall, það síðasta fyrir fjórum árum. Ári síðar var settur í hann gangráður. "Hann er með slæmt kvef, sem gæti verið ástæðan fyrir andarteppu hans," sagði talsmaður Cheney. Cheney hefur átt mjög annríkt upp á síðkastið vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum, sem lauk nýverið með sigri Bush. Meðal annars ferðaðist hann til Hawaii í aðeins nokkurra klukkustunda heimsókn. Telja margir að hann sé núna að finna fyrir eftirköstunum frá því mikla álagi sem hefur verið á honum. Eftir fjórða hjartaáfallið hætti Cheney að reykja. Hann æfir sig nú daglega og tekur lyf sem draga úr myndun kólesteróls í líkamanum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×