Erlent

Ný tækifæri hafa opnast

George W. Bush Bandaríkjaforseti og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, segja að ný tækifæri hafi opnast til að koma á friði í Mið-Austurlöndum Þessir tveir valdamiklu leiðtogar lýstu þessu yfir eftir fund sinn í Hvíta húsinu. Var þetta fyrsti opinberi leiðtogafundur Bush síðan hann var endurkjörinn í forsetaembættið. Bush sagði að líkurnar á því að stofnað yrði sjálfstætt palestínskt ríki innan fjögurra ára væru ágætar. Að sögn Blair þarf fyrst að kjósa nýjan leiðtoga í stað Jassers Arafat, sem lést á dögunum. "Ef við viljum öflugt palestínskt ríki verðum við að sjá til þess að traust pólitísk og efnahagsleg yfirbygging þjóðarinnar verði að veruleika," sagði Blair. Bush vottaði Palestínumönnum samúð sína eftir að hafa misst leiðtoga sinn en vonaðist á sama tíma til að nýr leiðtogi gæti haft í för með sér breytta tíma. Svo gæti farið að Colin Powell heimsæki Mið-Austurlönd á næstunni í von um að miðla málum á svæðinu. Bush stefnir hins vegar að því að fara í Evrópureisu á næstunni til að fjölga samherjum Bandaríkjamanna í heimsálfunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×