Erlent

Harði diskurinn í frysti

Saga af framkvæmdastjóra sem setti harða diskinn úr tölvunni í frysti er efst á lista yfir furðulegustu ráð sem fólk notar í von um að bjarga gögnum úr tölvunum sínum. Margir aðrir hafa notað þetta ráð í gegnum tíðina, sumir með ágætum árangri en aðrir ekki. Þetta kemur fram í könnun sem fyrirtækið Ontrack stóð fyrir en það sérhæfir sig í að bjarga töpuðum tölvugögnum. Að sögn fyrirtækisins er algengast að bilun í tölvum valdi því að gögn tapist en oft er skrítinni hegðun mannfólksins um að kenna. Hvetur fyrirtækið fólk til að vista betur það efni sem það á inni á tölvunum sínum. Önnur saga segir af manni sem varð svo brjálaður út í fartölvuna sína að hann fleygði henni ofan í klósettið og sturtaði nokkrum sinnum en án árangurs. Skömmustulegur leitaði hann síðan aðstoðar til að bjarga mikilvægum gögnum úr tölvunni. "Tölvugögn geta tapast vegna bilunar í tölvukerfum eða vegna tölvuvírusa en mannleg hegðun, þar á meðal "tölvubræði", virðist vera vaxandi vandamál," sagði einn af stjórnendum Ontrack-fyrirtækisins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×