Erlent

Fundur þrátt fyrir uppsögn

Colin Powell hefur sagt af sér sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna, en mun gegna embættinu áfram þar til eftirmaður er fundinn. Davíð Oddsson, forsætisráðherra á fund með Powell á morgun. Brotthvarf Powells kemur ekki á óvart því farið var að ræða um afsögn hans löngu fyrir forsetakosningarnar, í Bandaríkjunum. Colin Powell er líklega sá ráðherra bandarískur sem nýtur mestrara virðingar á alþjóðavettvangi. Hann hefur hinsvegar verið mjög upp á kant við haukana í Ríkisstjórn George Bush, þá Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra, og Dick Cheney varaforseta. Colin Powell er fyrrverandi hershöfðingi og yfirmaður bandaríska herráðsins, og sem slíkur var það hann sem fór með yfirstjórn hersins í fyrra Persaflóastríðinu, þegar Saddam Hussein var rekinn frá Kúveit. Þar útfærði hann Powell-kenninguna um að ef óhjákvæmilegt væri að fara í stríð ætti að gera það með ofurefli liðs, og beita öllum hernaðarmætti Bandaríkjanna. Þessu sneri Donald Rumsfeld á haus, þegar hann skipulagði síðari innrásina í Írak. Hann vill koma upp léttum og viðbragðssnöggum herafla. Innrásin sjálf tókst með miklum ágætum, en eftir það kom í ljós að bandarísku hermennirnir voru alltof fáir til þess að geta haldið uppi lögum og reglu, í landinu. Búist er við að Powell sitji áfram í utanríkisráðuneytinu fram í janúar, þegar George Bush sver embættiseið öðru sinni. Hver eftirmaður hans verður veit enginn. Einn mögulegur er Paul Wolfowich, aðstoðarutanríkisráðherra, sem er mikill haukur og harðlínumaður. Einnig hafa verið nefnd til sögunnar Condoleeza Rice, öryggismálaráðgjafi forsetans og John Danford, fyrrverandi öldungadeildarþingmaður, sem er sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Davíð Oddsson, forsætisráðherra, er kominn til Washington og er ráðgerður fundur hans og Colin Powells, á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×