Erlent

Bjóðast til viðræðna um brotthvarf

Ísraelar buðust í gær til þess að hafa samráð við Palestínumenn um brotthvarf sitt frá landtökubyggðum á Gazasvæðinu gegn því að palestínska heimastjórnin beitti sér gegn hópum herskárra Palestínumanna. Palestínumenn sögðu best að Ísraelar hæfu friðarviðræður á nýjan leik án þess að skilyrða það með einhverjum hætti. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, neitaði að ræða brotthvarfið við Jasser Arafat, hinn látna forseta palestínsku heimastjórnarinnar, sem hann sagði bera ábyrgð á fjögurra ára átökum Ísraela og Palestínumanna. Ísraelskir embættismenn eru sagðir skoða hvaða leiðir eru færar til að brotthvarfið leiði til sem minnstra átaka. Saeb Erekat, sem sæti á í palestínsku heimastjórninni, lýsti efasemdum um tilboð Ísraela og sagðist gruna að Ísraelar myndu setja of mörg skilyrði fyrir samráði til að hægt yrði að ganga að slíku tilboði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×