Erlent

Hrakin af heimilum sínum með valdi

Ein kona slasaðist og var borin alblóðug út af heimili sínu þegar til átaka kom í Peking. Hundrað lögreglumenn og fjöldi aðstoðarmanna þeirra báru fólk út af heimilum sínum svo rífa mætti húsin og byggja fjölbýlishús í þeirra stað. Algengt er að hús fólks í borgum Kína séu hrifsuð af fólki og þau rifin til að rýma til fyrir nýrri byggð. Þrátt fyrir að ný lög hafi verið sett í mars til að verja hag húseigenda er enn mikið um að brotið sé á rétti þeirra. Fólk fær lágar bætur fyrir hús sín, iðulega einungis þriðjung til helming þess sem húsnæði á svipuðum slóðum kostar. Fólk neyðist því til að flytja úr miðborgum í ódýrt húsnæði í úthverfum. Um þúsund manns bjuggu í húsunum sem byrjað var að rífa í gær. Húsin eru einnar hæðar og öll komin til ára sinna, byggð fyrir hundrað árum eða meira. Mörg húsin hafa verið í eigu sömu fjölskyldnanna kynslóð eftir kynslóð og því í einkaeign ólíkt meirihluta þeirra húsa sem hafa verið rifin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×