Erlent

Powell sagði af sér

Colin Powell lætur af starfi utanríkisráðherra Bandaríkjanna þegar George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur valið eftirmann hans. Bush féllst í gær á afsagnarbeiðni Powell og þriggja annarra ráðherra, Ann Veneman sem fer með landbúnaðarmál, Spencer Abraham sem fer með orkumál og menntamálaráðherrans Rod Paige. Condoleezza Rice, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, hefur verið nefnd sem líklegasti eftirmaður Powells. AP-fréttastofan nefndi einnig John Danforth, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum og fyrrum öldungadeildarþingmann, sem annan einstakling sem kæmi til greina. Afsögn Powells kemur ekki á óvart enda hafa menn lengi gert ráð fyrir að hann myndi hætta eftir kosningarnar sem fóru fram í byrjun mánaðarins. Að sögn CNN vildi Powell halda áfram starfi sínu í allt að þrjá mánuði til að ganga frá nokkrum málum, Bush forseti er hins vegar sagður hafa ákveðið að best væri að skipta um ráðherra sem fyrst svo það drægist ekki á langinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×