Erlent

Stefnan enn herskárri?

Condoleeza Rice, þjóðaröryggisráðgjafi Bush, tekur við embætti bandaríska utanríkisráðherrans af Colin Powell. Búist er við því að enn frekari harka færist í utanríkisstefnu Bandaríkjanna við ráðherraskiptin. Rice stendur á fimmtugu, er fyrrverandi yfirmaður í Stanford háskóla og náin vinur Bush fjölskyldunnar, en hún hóf sinn pólitíska feril í ríkisstjórn Bush eldri. Hún er sérfræðingur í málefnum fyrrverandi Sovétríkjanna og varnarmálum, en síðustu árin hefur hún aðallega unnið að samningum um kjarnorkumál við Norður Kóreu og Íran og er sérfræðingur stjórnarinnar þegar kemur að friðarsamningum Palestínu og Ísraels. Búast má við því að eitt meginverkefni Rice í nýju embætti verði að sjá til þess að friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs þokist af stað á nýjan leik. Rice er reyndar talin hafa haft meiri áhuga á starfi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, en Donald Rumsfeld situr þar sem fastast og sýnir ekki á sér fararsnið. Rice hefur gengið í það erfiða starf að sameina sjónarmið ólíkra afla innan Bandaríkjastjórnar: annars vegar herskáu haukanna með Rumsfeld í fararbroddi og hins vegar hófsamari manna eins og Powell, en þeir tveir hafa verið á öndverðum meiði hvað varðar öll helstu utanríkismál Bandaríkjanna síðustu árin. Dennis Johnson, prófessor við George Washington háskóla segir að ákvarðanir hafi almennt verið teknar af yfirvöldum í Pentagon og öryggisstjórn Hvíta Hússins, en Colin Powell hafi jafnan verið útundan. Powell naut aldrei verulegs stuðnings í ríkisstjórn Bush, en er að minnsta kosti talin hafa séð til þess að andstæð sjónarmið náðu eyrum forsetans. Nú þegar hann hverfur af vettvangi er einsýnt að haukarnir ná algerum yfirráðum og utanríkisstefna Bandaríkjastjórnar verður, ef eitthvað er, enn herskárri og einhliða en áður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×