Erlent

Dráp vekur reiði meðal Araba

Myndbandsupptaka sem sýnir þegar bandarískur hermaður skýtur særðan og vopnlausan íraskan uppreisnarmann til bana hefur vakið mikla reiði í Arabaheiminum. Bandaríkjaher rannsakar atvikið. Tíu írakskir uppreisnarmenn féllu og fimm særðust þegar bandarískir hermenn réðust síðasta föstudag inn í mosku í Fallujah, sem uppreisnarhópar höfðu notað sem bækistöð fyrir árásir á Bandaríkjaher. Daginn eftir, á laugardag, fór annar hópur bandarískra hermanna inn í moskuna í fylgd myndatökumanns og fréttamanns frá bandarísku sjónvarpsstöðinni NBC sem tóku myndir af því þegar bandarískur hermaður skaut særðan uppreisnarmann, sem ekki var ógnandi á nokkurn hátt. Þeir Írakar sem höfðu særst í bardaganum deginum áður lágu þá enn í moskunni, flestir illa særðir, dauðvona eða látnir. Ljóst er að Írakinn var á lífi þegar bandaríski hermaðurinn skaut hann og fréttamaður NBC vottar að hann hafi hvorki verið vopnaður né ógnandi á nokkurn hátt. Bandaríkjaher rannsakar nú atvikið sem virðist klárt brot á alþjóðalögum og hermanninum hefur verið vikið úr embætti á meðan. Félagar hermannsins segja að hann hafi þjáðst af stríðsstreitu enda sjálfur orðið fyrir skoti daginn áður. Víst er að atvik sem þessi eru afar algeng í stríði en það er hins vegar sjaldan sem þau nást á myndband.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×