Erlent

Mannfallið heldur áfram

Mikið mannfall virðist daglegt brauð í Írak. Skærur halda áfram í Fallujah og í nágrannaborgum rekur hvert hryðjuverkið annað. Árásir halda áfram á hluta borgarinnar Fallujah í Írak, þó að talsmenn Bandaríkjahers segi aðgerðum þar lokið. Í Írak og Arabaheiminum kraumar reiði og hneykslan vegna mynda sem sýna bandarískan hermann skjóta særðan og vopnlausan Íraka til bana. John Negroponte, sendiherra Bandaríkjanna í Írak, svaraði gagnrýninni í dag. Hann segir að þó að augljóslega sé enginn sáttur við atvik af þessu tagi, verði þeim sem í hlut á refsað á viðeigandi hátt samkvæmt herlögum. Það sé ekki rétt að dæma alla hermenn sem dvelji í Írak fyrir aðgerðir eins þeirra. Skæruliðar eru fáir eftir í Fallujah, en annars staðar virðist nóg af þeim. Fimmtán fórust þegar bílsprengja var sprengd í borginni Baiji, tveir tyrkneskir bílstjórar voru drepnir skammt frá Samarra, og níu féllu í borginni Ramadi. Mannfall í röðum Bandaríkjaher í þessum mánuði er hið næst mesta frá upphafi stríðsins í Írak, en hátt í hundrað hermenn hafa nú þegar fallið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×