Erlent

Stjórnmálamenn eru óheiðarlegir

Stjórnmálamenn eru óheiðarlegir og haga sér ósiðlega. Þeir hafa of mikil völd og ábyrgð og láta aðra valdamikla menn hafa of mikil áhrif á sig. Þetta eru meginniðurstöður alþjóðlegrar könnunar, sem kynnt var í dag. Niðurstöður könnunar sem Gallup gerði fyrir World Economic Forum eru ekki jákvæðar fyrir stjórnmálamenn þessa heims. Fimmtíu þúsund manns tóku þátt í könnuninni, sem gerð var um víða veröld, og 63 prósent þeirra telja að stjórnmálamenn séu óheiðarlegir. Hér á landi virðist þó almenningur bera mun meira traust til stjórnmálaleiðtoga, því aðeins tuttugu prósent aðspurðra voru á því að þeir væru óheiðarlegir. Tveir þriðju aðspurðra eru á því að stjórnmálamenn hafi of mikil völd á heimsvísu og um helmingur var á þeirri skoðun hérlendis. Íslendingar hafa þó meiri áhyggjur en aðrir af því að stjórnmálaleiðtogar láti undan þrýstingi þeirra sem hafa meiri völd, 66% samanborið við 57% á heimsvísu. 43% aðspurðra Íslendinga er á því að siðferðisbrestur sé vandamál meðal stjórnmálamanna, eða að þeir hagi sér ekki siðferðislega rétt. Meðaltalið í könnuninni erlendis var 52%, svo að Íslendingar virðast hafa minni áhyggjur af siðferði stjórnmálamanna en aðrir. Þeir sem þátt tóku í könnuninni virðast einnig hafa töluverðar áhyggjur af framtíðinni og þróun mála í heiminum. 45 prósent eru á því að heimurinn yrði hættulegri í framtíðinni og um þriðjungur var á því að á næstu árum myndi hættan aukast töluvert. Íslendingar eru ívið bjartsýnni en aðrir Vestur-Evrópubúar. Um 48% þjóðarinnar telja að næsta kynslóð muni lifa í óöruggari heimi, 18% telja að heimurinn verði öruggari og 29% telja að heimurinn verði samur og í dag. Í efnahagsmálum eru Íslendingar jafnframt bjartsýnni en aðrir, þar sem 30% landsmanna telja að efnahagsleg velsæld verði meiri, 49% að hún verði söm og í dag og 14% að hún verði minni hjá komandi kynslóðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×