Erlent

Neita samstarfi um herþjálfun

Þrátt fyrir að öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hafi samþykkt að bandalagið tæki að sér þjálfun íraskra herforingja, í Írak, neituðu í það minnsta sex aðildarríkjanna, Belgía, Frakkland, Grikkland, Lúxemborg, Spánn og Þýskaland, að senda hermenn til Írak til að þjálfa herforingja. Þau bönnuðu hermönnum sínum í stjórnstöðvum Nató einnig að taka nokkurn þátt í aðgerðinni.. Neitun aðildarríkjanna sex fer mjög í taugarnar á Bandaríkjastjórn að því er AFP fréttastofan hafði eftir ónafngreindum háttsettum embættismanni í bandaríska utanríkisráðuneytinu. Einkum fer afstaða Þjóðverja fyrir brjóstið á Bandaríkjastjórn þar sem þeir telja afstöðu Þjóðverja brjóta niður samstöðu Natóríkja um þjálfun íraskra herforingja. Ekki er nóg með að ríkin sex neiti að senda hermenn til Írak heldur banna þau herforingjum sínum í stjórnstöðvum Atlantshafsbandalagsins einnig að taka nokkurn þátt í verkefninu. Það fer jafnvel meira í taugarnar á Bandaríkjamönnum en það að ríkin neiti að senda hermenn til Írak, sem þeir áttu í sjálfu sér ekki von á að sum ríkjanna myndu gera. Sendiherrar allra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins samþykktu áætlunina um þjálfun íraskra hermanna án umræðu á fundi sínum á miðvikudag. Þá héldu Bandaríkjamenn og aðrir þeir sem ætla að senda hermenn til Írak að vandinn væri leystur. Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er sagður ósáttur við að ríkin standi í vegi fyrir samstarfi um þjálfun íraskra herforingja. Í gær hvatti hann öll aðildarríki bandalagsins að láta sitt af höndum rakna. "Atlantshafsbandalagið vinnur nú að því að setja upp herskóla fyrir íraskra herforingja. Ég hvet öll bandalagsríkin til að taka þátt í því ferli" sagði de Hoop Scheffer þar sem hann var staddur í Lettland en ekki var útlit fyrir að honum yrði að ósk sinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×