Erlent

Enn kýta Frakkar og Bandaríkjamenn

Aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að Frakkar voni að þeim mistakist að koma á friði og lýðræði í Írak. Óvildin milli Bandaríkjanna og Frakklands hefur blossað upp að nýju, aðeins þrem vikum eftir að George Bush var endurkjörinn forseti. Það var Jacques Chirac, forseti Frakklands, sem skaut fyrsta skotinu í heimsókn sinni til Bretlands í gær þegar hann endurtók fyrri ummæli sín um að heimurinn væri orðinn hættulegri en áður vegna innrásar Bandaríkjamanna í Írak. Richard Armitage, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í sjónvarpsviðtali við arabíska sjónvarpsstöð í gær að Chirac óttaðist að Bandaríkjunum tækist ætlunarverk sitt í Írak. Bandaríkjamenn eru mjög reiðir Chirac, ekki síst í ljósi þess að Bush forseti lýsti því yfir eftir endurkjör sitt að hann myndi leggja megináherslu á að bæta sambúðina við Evrópu á síðara kjörtímabili sínu. Þótt Bandaríkjamenn viðurkenni að innrásin í Írak hafi aukið óvinsældir þeirra benda þeir á að hryðjuverkamenn hafi verið í hröðum uppgangi löngu fyrir innrásina. Þeir hafi verið að gerast æ stórtækari þar til þeir spiluðu út stóra trompinu með árásunum 11. september.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×