Erlent

Stórveldin takast á

Gamla Evrópa, eins og Bandaríkjamenn kalla Frakkland og Þýskaland, tregðast við að fella niður skuldir Íraka. Aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að Frakkar voni að þeim mistakist að endurreisa Írak. Sjö helstu iðnríki heims funda nú í Þýskalandi og eitt aðalmálið á dagskrá er erlendar skuldir Íraka, sem nema 122 milljörðum króna. Írakar hafa beðið um að þessar skuldir verði felldar niður þar sem byrðin sé svo þung að hún standi endurreisn landsins fyrir þrifum. Bandaríkjamönnum er einnig mjög umhugað um að skuldirnar verði afskrifaðar. Það gengur hins vegar treglega að fá iðnríkin til þess að samþykkja beiðni Íraka. Fjármálaráðherra Þýskalands sagði að vísu í dag að tillaga hefði komið fram um að fella niður áttatíu prósent skuldarinnar á átta árum. Það finnst Bandaríkjamönnum bæði seint og of lítið, en Gerhard Schröder, kanslara Þýskalands, er nokkuð sama. Hann segir að ef ástandið í Írak fari batnandi verði að vera hægt að endurskoða málið, með hliðsjón af því að Írak er ríkt olíuríki. Frakkar eru nokkuð sama sinnis og Þjóðverjar og óvildin milli gömlu Evrópu og Bandaríkjanna hefur blossað upp á nýjan leik. Jacques Chirac, forseti Frakklands, sagði fyrr í vikunni að innrás Bandaríkjamanna í Írak hefði gert heiminn hættulegri en hann var. Richard Armitage, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, brást reiður við og sagði að Frakkar beinlínis vonuðust til að Bandaríkjamönnum takist ekki að koma á friði og lýðræði í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×