Erlent

Tvö mannskæð slys í Kína

Fimmtíu og þrír létust þegar flugvél endastakkst ofan í ísi lagt stöðuvatn aðeins nokkrum sekúndum eftir flugtak í norðurhluta Kína í morgun. Níu námumenn létu jafnframt lífið í eldsvoða í sama landshluta í morgun. Slysið varð í héraðinu Innri Mongólíu og var vélin á leið frá Baotou til Shanghæ með fimmtíu og einn innanborðs. Ekki er vitað hvað kom upp á, veður var gott og því talið ljóst að einhvers konar vélarbilun hafi orðið. Sjónarvottar segja að vélin hafi gefið frá sér svartan reyk, svo hafi heyrst mikil sprenging og vélin endastakkst í gegnum skemmtigarð og út á ísi lagt stöðuvatn. Þar stóð hún í björtu báli áður en hún stakkst ofan í vatnið. Allir um borð létust auk tveggja manna á jörðu niðri. En þetta var ekki eina slysið í norðurhluta Kína í morgun því níu námumenn létu lífið og 57 er saknað eftir mikinn eldsvoða í járnnámum í Hebei héraði. Námuslys eru afar tíð í Kína og að jafnaði verður að minnsta kosti eitt kolanámuslys í hverri einustu viku. Kína er orðið sjöunda stærsta hagkerfi heimsins og eftirspurn eftir eldsneyti hefur aukist gríðarlega. Til að anna þessu hefur orðið mikil aukning í námugreftri en eftirlitið er hins vegar afar takmarkað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×