Erlent

Nú liggja Danir í því

MYND/Vísir
Hundruð Dana eru öskureiðir vegna umdeildra póstkorta frá lífeyrissjóði þeirra. Talsmaður sjóðsins biðst afsökunar og segir fyrirtækið hafa farið yfir strikið. Póstkortið er stílað á karlmanninn á heimilinu en vekur meiri athygli og jafnvel reiði hjá unnustum og eiginkonum, þegar það svífur inn um bréfalúguna eða póstkassann. Það lítur út eins og auglýsingapóstkort á framhliðinni, en á bakhliðinni eins og handskrifað póstkort. Þar stendur:„Hæ sæti. Takk kærlega fyrir síðast. Þó það sé orðið langt síðan hef ég ekki getað hætt að hugsa um þig. Ég verð að hitta þig aftur.“ Með kortinu fylgir símanúmer og undir það skrifar kvenmaðurinn „Kirsten“. Í fréttum danska ríkissjónvarpsins í gærkvöldi var viðtal við stúlku sem sagðist hafa orðið græn af öfund, hringt í kærastann og hundskammað hann fyrir framhjáhald. Hann kom af fjöllum og það var ekki fyrr en parið hringdi í símanúmerið á kortinu sem hið sanna kom í ljós: „Vonandi olli kortið ekki fjaðrafoki á heimilinu,“ segir blíð kvenmannsröddin á þrjátíu sekúndna símsvara þar sem kemur fram að lífeyrissjóðurinn PenSam hafi sent kortið. Sjóðurinn er sagður vilja tryggja viðskiptavinum sínum heilbrigt og langt líf og vonast er til að þeir sem hringi gefi sér tíma til að fara inná vef sjóðsins til að kynna sér málið nánar. Í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi kom fram að fleiri hundruð viðskiptavinir hafi hringt og kvartað yfir póstkortunum. Talsmaður lífeyrissjóðsins sagði að kortin hafi átt að vera skemmtileg en augljóst sé að skotið hafi verið yfir markið og eru viðskiptavinir beðnir velvirðingar á hrekknum.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×