Erlent

Taka Flugleiðir yfir easyJet?

Breskir fjölmiðlar spá í morgun yfirtökutilboði frá Flugleiðum í lággjaldaflugfélagið easyJet. Gengi bréfa í félaginu hækkaði vegna sögusagnanna, en búist er við lækkun og hugsanlegu yfirtökutilboði í kjölfar þess að afkomutölur verða birtar á morgun. Mikil harka er á lággjaldaflugmarkaðinum sem stendur og af þeim sökum sem og vegna hás olíuverðs er búist við slökum afkomutölum frá easyJet á morgun. Gert er ráð fyrir tæplega 30% minni hagnaði á fyrri helmingi þessa árs en á sama tímabili í fyrra. Fyrir vikið er því spáð að gengi bréfa í félaginu gætu lækkað og það orðið girnilegt yfirtökuskotmark fyrir vikið. Flugleiðir keyptu ríflega tíu prósenta hlut í easyJet í síðasta mánuði og hafa látið að því liggja, að frekari hlutafjárkaup kæmu til greina. Hannes Smárason, stjórnarformaður Flugleiða, sagði á sínum tíma að gengi bréfa í easyJet hefði lækkað af þessum sökum og því teldu Flugleiðamenn þau góða fjárfestingu. Blaðið Independent segir nú allt krökt af sögusögnum á fjármálamarkaði þess efnis, að búist sé við yfirtökutilboði frá Flugleiðum, reynist afkoma easyJet jafn slök og spáð er. Sögusagnirnar urðu til þess að gengi bréfa í easyJet hækkaði um 3,4% á föstudaginn. Fundur Hannesar Smárasonar með Stelios Haji-Ioannou í Lundúnum á miðvikudaginn var olía á eld spámanna, en samkvæmt yfirlýsingu Haji-Ioannou, sem á ríflega fjörutíu prósent í easyJet, ræddi þeir Hannes meðal annars hvort að til greina kæmi að taka félagið af markaði og hvort að Haji-Ioannou gæti hugsað sér að selja hlut sinn í félaginu, sem hann þvertók fyrir. Talsmenn easyJet segjast ekki vitað til þess að frekari kaup Flugleiðamanna séu fyrirhuguð, og talsmenn Flugleiða sögðu ekkert að frétta í morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×