Erlent

Hefja afskipti á ný

Bandaríkjamenn hafa hafið afskipti af friðarferlinu fyrir botni Miðjarðarhafs á ný. Powell, utanríkisráðherra, er kominn til Ísraels til viðræðna við Ísraela og Palestínumenn. Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur ekki komið til Miðausturlanda í eitt og hálft ár, en í gærkvöldi lenti vél hans þar. Í morgun átti hann fundi með Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels og síðdegis mun hann hitta palestínska ráðamenn. Megináherslan mun verða á kosningar sem verða snemma á næsta ári á svæðum Palestínumanna til að kjósa eftirmann Jassirs Arafats. Palestínumenn vona og vilja að Powell hlutist til um að Ísraelsstjórn standi ekki í vegi fyrir kosningunum, en Ísraelsmenn hafa þegar lofað að kalla hersveitir frá hlutum Vesturbakkans til að liðka fyrir þeim. Powell lagði í morgun að Sharon að hindra ekki ferðir fólks á svæðum Palestínumanna, og hann hyggst þrýsta á Palestínumenn að halda aftur af öfgahópum í aðdraganda kosninganna. Heimsókn Powells þykir til marks um að Bandaríkjastjórn hyggist nú, eftir fráfall Jassirs Arafats, taka virkan þátt í friðarferlinu á ný. Búist er við að eftirmaður Powells, Condoleezza Rice, núverandi þjóðaröryggisráðgjafi, muni halda starfinu áfram á nýju ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×