Erlent

Læknir SÞ handtekinn

Tíu manns voru handteknir í Kabúl í gær í tengslum við mannrán á þremur starfsmönnum Sameinuðu þjóðanna. Bandarískir hermenn ásamt afgönskum lögreglumönnum réðust inn í hús í miðborg Kabúl í leit að gíslunum þremur sem hafa verið í haldi mannræningja síðan 28. október. Aðgerðirnar voru nokkuð harkalegar því hermennirnir sprengdu gat á vegg sem umkringir eitt húsanna sem þeir réðust inn í. Þar handtóku þeir afganskan lækni og son hans. Staðfest hefur verið að læknirinn starfaði á heilsugæslu sem rekin er af Sameinuðu þjóðunum í Kabúl. Engar frekari upplýsingar hafa borist af því hvers vegna læknirinn var handtekinn. Hermennirnir réðust einnig inn í annað hús þar sem nokkrar fátækar fjölskyldur búa. Þar voru átta menn handteknir. Gíslarnir þrír, sem eru frá Filippseyjum, Englandi og Kosovo, fundust ekki í þessum aðgerðum. Ekki er vitað hvort þeir eru á lífi. Gíslatökumennirnir, sem segjast tilheyra samtökum sem heita Múslímsku hersveitirnar, hafa sagt að gíslarnir verði látnir lausir ef 26 talíbanar sem eru í haldi bandarískra yfirvalda verði látnir lausir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×