Erlent

Vannærð börn helmingi fleiri

Tæplega helmingi fleiri írösk börn þjást af vannæringu núna en áður en ráðist var inn í landið, þrátt fyrir matardreifingu Sameinuðu þjóðanna. Þetta eru niðurstöður norskrar rannsóknar sem var unnin í samvinnu við írösku bráðabirgðastjórnina og Þróunaraðstoð Sameinuðu þjóðanna. Síðan í mars 2003 hefur vannæring meðal barna á aldrinum 6 mánaða til fimm ára aukist úr fjórum prósentum upp í 7,7 prósent. Jon Pedersen, sem stýrði rannsókninni, segir niðurstöðurnar óvæntar, ógnvænlegar og illskiljanlegar. Rannsóknin náði til 22 þúsund íraskra heimila og benda niðurstöður hennar til þess að um 400 þúsund börn séu vannærð. Í rannsókninni kemur fram að það sé misjafnt eftir landsvæðum hversu algeng vannæringin er. Mest er hún í suðvestanverðu landinu, en minnst í norðurhluta landsins hjá Kúrdum. Pedersen segir líklegustu skýringuna á því þá að hjálparstofnanir hafi átt auðveldara með að koma birgðum þangað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×