Erlent

Sleppt heilum á húfi

Þremur starfsmönnum Sameinuðu þjóðanna sem teknir höfðu verið í gíslingu var sleppt eftir nær fjórar vikur. Innanríkisráðherra Afganistans, Ali Ahmad Jalali, segir að engir samningar hafi verið gerðir til að tryggja öryggi þeirra. Angelito Nayan frá Filippseyjum, Annetta Flanigan frá Bretlandi og Shqipe Hebibi frá Kosovo var rænt 28. október þar sem þau ferðuðust um í Kabúl í bifreið merktri Sameinuðu þjóðunum. Þau voru fyrstu útlendingarnir sem voru teknir í gíslingu í Kabúl frá því Talibanar misstu völd fyrir þremur árum. Ránið á þeim hefur valdið ugg um að gíslataka af hendi uppreisnarmanna verði jafn tíð í Afganistan og hefur verið í Írak. Talsmaður hópsins sem ber ábyrgð á gíslatökunni sagði við fréttamenn AP að gíslunum hefði verið sleppt gegn fullvissan um að 24 liðsmönnum úr hópnum yrði sleppt í dag úr afgönskum fangelsum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×