Innlent

Varð alelda á nokkrum mínútum

Hafþór Þórsson vaktmaður varð fyrstur var við eldinn á svæði Hringrásar við Klettagarða um klukkan hálf tíu í fyrrakvöld. Hann var að klára vakt sem átti að ljúka klukkan tíu og fór í síðustu eftirlitsferðina. "Ég gekk út og varð þá var við smá loga í þakhorninu á skemmunni," segir Hafþór. Hafþór hringdi strax í neyðarlínuna þegar hann sá eldinn. Fjórum til sex mínútum síðar segir hann lögreglu og slökkvilið hafa verið komin á staðinn. "Á nokkrum mínútum var skemman orðin alelda og eldur kominn yfir í dekkjahrúguna. Í fyrstu voru miklar sprengingar inni í eldhafinu. Ég tel að þá hafi gaskútar verið að springa en síðan fór að líða lengra á milli sprenginga," segir Hafþór. Hann fór til að bjarga einni vinnuvélinni frá eldinum en vélin var síðar notuð til að forða eldsmat á svæðinu frá því að brenna. Aðspurður segist hann ekki hafa orðið var við mannaferðir á svæðinu, sem er afgirt. Hann segir ekki að því hlaupið að komast inn á svæðið og þaðan inn í skemmuna. Hafþór er aðeins nítján ára og fannst honum sárt að sjá eldsvoðann á sínum fyrsta vinnustað, sem hann hefur starfað á í þrjú ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×