Erlent

Yanukovych lýstur sigurvegari

Yfirkjörstjórn í Úkraínu lýsti því yfir fyrir stundu að sigurvegari forsetakosninganna í landinu sé forsætisráðherrann Viktor Yanukovych. Yanukovych er sagður hafa fengið 49,46% atkvæða en mótframbjóðandi hans, Viktor Yushchenko, 46,61%. Talið er að um 200 þúsund manns mótmæli nú á götum höfuðborgar Úkraínu. Mannfjöldinn lýsir yfir stuðningi við Yushchenko, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem sakað hefur stjórnvöld um að hafa af sér sigurinn með kosningasvindli. Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO, sagði nú síðdegis að nauðsynlegt væri að fara vel í saumana á framkvæmd hinna umdeildu forsetakosninga sem fram fóru í Úkraínu um síðustu helgi. Hann segir grundvallarkröfu að farið sé eftir lýðræðislegum leikreglum og að engin vafi megi leika á hvort svo sé í kosningum sem þessum. Evrópusambandið segist telja að svik hafi verið höfð í tafli við framkvæmd kosninganna og almenningur í Úkraínu neitar að sætta sig við þær tölur sem stjórnvöld hafa birt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×