Erlent

Súkkulaði vinnur á hósta

Þeir sem þjást af þrálátum hósta yfir vetrartímann ættu að háma í sig súkkulaði því samkvæmt nýrri breskri rannsókn virðist súkkulaði lækna slíka kvilla betur en hefðbundin lyf. Það voru sérfræðingar við Imperial háskólann í Lundúnum sem gerðu rannsóknina en greint er frá niðurstöðum hennar í nýjasta hefti vísindaritsins New Scientist. Samkvæmt rannsókninni virkar kakóefni í súkkulaði gegn þrálátum hósta á mun betri hátt en hefbundið hóstasaft. Hóstakvillar geta hrjáð fólk svo vikum, ef ekki mánuðum, skiptir vegna veirusýkingar og getur slíkt reynst erfitt viðureignar. Í rannsókninni var einum hópi sjálfboðaliða gefnar töflur sem innihéldu kakóefnið theóbrómín og öðrum hópi voru gefnar töflur með kódíni, sem er algengt í hóstasafti og er vanabindandi efni. Þátttakendurinir voru síðan látnir anda að sér gasi með efninu capsækín en í því er chili-pipar sem framkallar hósta. Rannnsóknin leiddi í ljós að þeir sem fengu kakóefnið þurftu um þriðjungi meira af gasinu til þess að hósta en þeir sem notuðu kódín. Forsvarsmenn Lungnastofnunar Bretlands segja þetta mikilvægt skref og að niðurstöðurnar lofi góðu, en þrálátur hósti getur haft slæm áhrif á þá sem þjást af lungnasjúkdómum. Frekari rannsókna sé þó þörf áður en hægt sé að fleygja hóstasaftinu og háma þess í stað í sig súkkulaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×