Erlent

Janukovitsj lýstur sigurvegari

Yfirkjörstjórn forsetakosninganna í Úkraínu staðfesti í gær að Viktor Janukovitsj, forsætisráðherra landsins, hefði borið sigurorð af Viktor Júsjenko. Mikil spenna ríkir í landinu og er óttast að til átaka geti komið vegna yfirlýsingar yfirkjörstjórnarinnar. Tugir þúsunda stuðningsmanna Júsjenko, hafa mótmælt á götum Kiev og annarra borga síðan á mánudaginn. Búist er við því að þeir sætti sig ekki við þessa niðurstöðu enda hefur Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Evrópuþingið og Atlantshafsbandalagið tilkynnt að framkvæmd kosninganna hafi ekki verið í samræmi við lýðræðislegar reglur. Þeir þingmenn sem styðja Janukovitsj fögnuðu gífurlega þegar niðurstaðan var kynnt en þeir sem styðja Júsjenko hrópuðu: "hneisa, hneisa!" Þá kom beinlínis til átaka milli þingmanna og skiptust einhverjir þeirra á hnefahöggum. Petro Poroshenko, þingmaður sem styður Júsjenko, segir að yfirkjörstjórnin hafi með yfirlýsingu sinni tekið þátt í valdaráni Janukovitsj. "Nú mun fólkið á götunni láta vilja sinn í ljós," segir Poroshenko. Tilkynning yfirkjörstjórnarinnar kom eftir að Leonid Kuchma, fráfarandi forseti, hafði sagt að reynt yrði að ná sáttum með einhvers konar málamiðlun. Mykola Tomenko, þingmaður sem styður Júsjenko, sagði þúsundum stuðningsmanna hans hins vegar að málamiðlun kæmi ekki til greina. "Við erum aðeins tilbúnir að semja um einn hlut - valdaframsal til Júsjenko," sagði hann. Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir að ef úkraínsk stjórnvöld heimili ekki hlutlausa rannsókn á framkvæmd kosninganna geti það haft afrdifaríkar afleiðingar. Evrópusambandið muni þá endurskoða pólitísk og viðskipaleg tengsl sitt við landið. "Við hörmum að úkraínsk stjórnvöld skuli ekki hafa notað tækifærið til að sýna ábyrgð sína gagnvart framþróun lýðræðisins," segir Barroso.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×