Erlent

Borgarastyrjöld gæti brotist út

Óttast er að borgarastyrjöld kunni að brjótast út í Úkraínu vegna ólgunnar sem þar er eftir forsetakosningarnar í landinu. Evrópusambandið telur að kosningasvik hafi verið framin í Úkraínu.Tugþúsundir mótmæltu úrslitum forsetakosninganna á götum Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu, í morgun, þriðja daginn í röð, og lýstu jafnframt yfir stuðningi við Viktor Yushchenko, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem sakað hefur stjórnvöld um að hafa af sér sigurinn með kosningasvindli. Almenningur neitar að sætta sig við opinberar niðurstöður forsetakosninganna sem haldnar voru um síðustu helgi, og hafa átök brotist út í höfuðborginni þar sem mótmælendum og óeirðalögreglu hefur lent saman. Samkvæmt opinberum niðurstöðum sigraði Viktor Yanukovych forsætisráðherra í kosningunum en hann nýtur stuðnings rússneskra stjórnvalda. Leonid Kutchma, fráfarandi forseti, hefur verið sakaður um víðtæk kosningasvik en hann hafði áður lýst yfir stuðningi við forsætisráðherrann. Hann segir mótmælin í Kænugarði pólitískan farsa og hvetur deilendur til að leysa ágreininginn með friðsamlegum hætti. Óttast er að ólgan í Úkraínu kunni að leiða til borgarastyrjaldar. Áformað er að tilkynna um endanleg úrslit kosninganna síðar í dag og er búist við að átökin muni magnast í kjölfarið. Bandaríkjastjórn hefur skorað á úkraínsk stjórnvöld að viðurkenna ekki kosningaúrslitin fyrr en búið verði að rannsaka hvort kosningasvik hafi verið framin eða ekki. Fulltrúar Evrópusambandsins telja að kosningasvik hafi verið framin og vara við afleiðingunum. Javier Solana, yfirmaður utanríkismála ESB, hvatti stjórnvöld í Úkraínu í morgun til þess að fara yfir þessi mál. Hann sagði Úkraínu á krossgötum og taldi að niðurstaða forsetakosninganna gæti leitt til blóðugra átaka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×