Erlent

Enn boðað til neyðarfundar

Þingið í Úkraínu hefur boðað til neyðarfundar til að fjalla um ástandið í landinu vegna forsetakosninganna. Forseti Póllands og yfirmaður utanríkismála Evrópusambandsins eru komnir til Kænugarðs til að reyna að miðla málum. Tugþúsundir Úkraínumanna héldu áfram að mótmæla úrslitum forsetakosninganna á götum Kænugarðs í morgun, með því að hundrað aðgang að opinberum byggingum í höfuðborginni. Langflestir mótmælendanna eru stuðningsmenn Viktors Júsjenkó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem hefur sakað stjórnvöld landsins um að hafa tryggt Viktori Janúkóvits, forsætisráðherra, sigurinn með kosningasvikum, en Janúkóvits nýtur stuðnings rússneskra stjórnvalda. Júsjenkó hefur kært meint kosningasvik og ætlar hæstiréttur Úkraínu að taka kæruna fyrir, og hefur meðal annars bannað opinbera birtingu kosningaúrslitanna. Júsjenkó ætlar að funda með Lenóníd Kútsma, fráfarandi forseta, vegna kreppunnar og ólgunnar í landinu, en stjórnvöld hafa dregið í efa umboð Hæstaréttar til að fjalla um kærur vegna kosninganna. Alexander Kwasniewski, forseti Póllands, Javier Solana, yfirmaður utanríkismála Evrópusambandsins, og Valdas Adamkus, forseti Litháens, komu til Úkraínu í dag, í þeirri von að geta þar miðlað málum. Úkraínska þingið hefur boðað til neyðarfundar á morgun, til að ræða ólguna í landinu, og þá ákvörðun að fresta innsetningu Janúkóvits í embætti forseta. Allir flokkar, að flokki forsætirráðherrans undanskyldum, hafa tilkynnt þátttöku sína í umræðunum á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×