Erlent

Arfleifð Arafats skapar svigrúm

Í byrjun vikunnar funduðu forystumenn bandarísk-evrópsku stofnunarinnar East-West Institute í Höfða í Reykjavík. EWI er sjálfstæð stofnun og var sett á laggirnar árið 1981. Hún hefur síðan beitt sér í helstu deilumálum heimsins á hverjum tíma og er ein stærsta stofnun sinnar tegundar í dag sem tugir ríkisstjórna leita til eftir ráðgjöf. Þriðjudaginn 23. nóvember var haldinn opinn umræðufundur í Háskóla Íslands þar sem John E. Mroz, stofnandi og forseti stofnunarinnar og Mathias Mossberg , sendiherra ræddu um framtíðarhorfur í alþjóðamálum í ljósi kosninga í Rússlandi, Bandaríkjunum og Evrópusambandinu og friðarlíkur fyrir botni Miðjarðarhafs. Fyrirbyggjandi aðgerðir Mroz segir að endurkjör Pútíns og Bush í nýafstöðnum forsetakosningunum í Rússlandi og bandaríkjunum staðfesti að um þessar mundir sé íhaldssemi ríkjandi þar og það megi rekja til ótta vegna hryðjuverka. "Þegar fólk er óttaslegið er það íhaldsamara en ella og tilbúið að gefa eftir réttindi sem það annars myndi ekki gera í skiptum fyrir öryggistilfinningu." Staða Pútíns og Bush er sterk þessa stundina og Mroz segir eitt stærsta spursmálið vera hvort það muni hafa áhrif á stefnu þeirra og hvaða afleiðingar það muni hafa á önnur ríki. "Pútín hefur tileinkað sér bandarísku kenninguna um fyrirbyggjandi aðgerðir, það er að hann geti beitt öllum tiltækum ráðum telji hann öryggi Rússlands ógnað. Það á eftir að koma í ljós hvernig Pútín mun nýta sér það, en allar líkur eru á að fleiri ríki en hollt er eigi eftir að tileinka sér kenninguna um fyrirbyggjandi aðgerðir." Batnandi sambúð við Evrópu Síðastliðið eitt og hálft ár hefur Evrópusambandið bæði stækkað og skipt um framkvæmdastjórn. Mroz að samtímis hafi samskipti Evrópu og Bandaríkjanna batnað verulega og innan ESB heyrist jafnvel þær raddir að samskipti ESB við Bandaríkin séu betri en við sum Evrópulönd utan sambandsins. Þetta hafi ekki verið reyndin fyrir ári síðan, segir Mroz enda hafi stefna Bush gagnvart Evrópu verið slæm fyrstu tvö ár hans í embætti. Mroz telur að sprengjutilræðin í Madrid skýri að miklu leyti hvers vegna samskiptin hafiu batnað. Eftir þau hafi Evrópuríkin þurft að endurmeta stöðuna og við rannsókn á tilræðunum hafi athygli Bandaríkjanna á Norður-Afríku verið vakin. "Bandaríkin höfðu lítinn áhuga á því svæði fyrr en að það kom í ljós við rannsóknina að Marokkó er orðin gróðrastía fyrir hryðjuverkamenn. Í kjölfarið hefur samstarf ESB og Bandaríkjanna í baráttu við hryðjuverkastarfssemi orðið mun umfangsmeiri en áður." Útbreiðsla kjarnavopna verður pólstjarnan í bandarískri utanríkisstefnu næstu misseri að mati Mroz. Bandaríkin hafa hins begar engan áhuga á að fara í annað stríð og því skipti máli að afla sér gagnlegra bandamanna. Hann nefnir að ESB hafi beitt sér röggsamlega gagnvart Íran. "Indland kemur líka til með að skipta miklu máli þar sem þeirra framlag til öryggismála í Súdan og Afganistan er mikið, en það er líka mikilvægt að fá stjórnvöld í Rússlandi, Japan og Kína til að þrýsta á Norður-Kóreu." Palestína fyrsta lýðræðisríkið Mroz og Mossberg dvöldu báðir nýlega í Ramallah og telja báðir að betri aðstæður en oft áður hafi skapast til að tryggja varanlegan frið milli Palestínu- og Ísraelsmanna. "Það er þrennt sem skiptir máli," segir Mossberg. "Ákvörðun Ísraelsmanna um að rýma landnemabyggðir; væntingar til nýrrar forystu Palestínumanna sem verður valin í janúar og ekki síst endurnýjaður áhugi Bandaríkjanna á að leiða deiluna til lykta." Mossberg bendir á að Arafat hafi lengi verið sameiningartákn palestínsku þjóðarinnar og það sé það jákvæðasta við arfleifð hans. "Í Ramallah voru myndir af Arafat út um allt og á þeim stóð: "Hann á það inni hjá okkur." Vissulega gæti það valdatóm sem hann skilur eftir sig leitt til borgarastyrjaldar en andrúmsloftið meðal Palestínumanna er að það sé það versta sem gæti gerst. Arftaki hans, sem líklega verður Mahmoud Abbas, mun kannski ekki njóta víðtæks stuðnings fyrst um sinn, en fær ef til vill svigrúm til að ljúka verki Arafats. Ef honum þokar áleiðis mun stuðningur við hann aukast." Mroz segir að ráðamenn í Palestínu gera sér grein fyrir að kerfi Arafats var ólýðræðislegt og spillt og því hafi fráfall hans verið viss léttir. "Abbas, sem er forseti til bráðabirgða, hefur ekki haft undan við að undirrita lög sem höfðu verið samþykkt en Arafat neitaði að skrifa undir því þau takmörkuðu völd hans. Það eru þegar hafnar úrbætur og reyndar ótrúlega hversu langt Palestínumenn eru komnir. Ég held að Palestína muni verða fyrsta lýðræðisríki Mið-austurlanda." Breytt forgangsröð í Palestínu Mroz og Mossberg viðurkenna báðir að leiðin að settu marki verði vandfetuð, til dæmis geti palestínumenn orðið tortryggnir gagnvart eigin stjórnvöldum ef bandarísk og ísraelsk stjórnvöld eru mjög jákvæð í þeirra garð. Þá þurfi Ísraelsmenn að sýna í verki að þeir vilji greiða fyrir efnahags- og atvinnuuppbyggingu í Palestínu eins og þeir hafa fullyrt. "Eðlilega efast Palestínumenn um einlægni Ísraelsmanna því það vantar fordæmi fyrir efndum. Úr því þarf Ísraelsstjórn að bæta. Það er líka mikil þörf á erlendum fjárfestingum í Palestínu og mér finnst að George Bush ætti að fá fyrrum viðskiptafélaga sína til að fjárfesta í fyrirtækjum og viðskiptum í Palestínu." Mroz segir Palestínumenn hafa endurraðað forgangsmálum og það sé ein forsendan fyrir því að lausn náist. "Andrúmsloftið í Palestínu er ekki lengur að það sé fyrir öllu að stofna sjálfstætt ríki sem fyrst. Það er fyrir öllu að binda enda á hernámið sem og snúa sér þá að praktískum hlutum sem snúa að daglegu lífi, eins atvinnu- og efnahagsuppbyggingu. Þá fyrst forsendur hafa skapast forsendur fyrir því að Palestína verði sjálfstætt ríki."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×