Erlent

Kosningar endurteknar fyrir áramót

Úkraínska þingið hefur lýst forsetakosningarnar sem fóru fram um síðustu helgi ógildar. Þá samþykkti þingið einnig vantrausttillögu á yfirkjörstjórnina sem á miðvikudaginn staðfesti sigur Viktors Janukovitsj í kosningunum. Það gerði yfirkjörstjórnin þrátt fyrir gríðarleg mótmæli hundruð þúsunda úkraínskra borgara og vestrænna ríkja sem telja að Janukovitsj hafi svindlað í kosningunum á kostnað Viktors Júsjenko. Þó að þingið hafi lýst kosningarnar ógildar með samþykki 255 þingmanna af 429 er samþykktin ekki lagalega bindandi. Hún er hins vegar talinn vera mikill sigur fyrir stjórnarandstöðuna. Vantraustið á yfirkjörstjórnina hefur heldur ekki neina lagalega þýðingu en þykir auka þrýstinginn á Janukovitsj. Evrópusambandið hefur farið fram á að kosningarnar verði endurteknar fyrir áramót og er talið líklegt að það verði niðurstaðan. Javier Solana, utanríkisráðherra sambandsins, hefur tekið þátt í viðræðum um friðsamlega lausn deilunnar. Hann segir að ef kosningarnar verði ekki endurteknar muni það hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir samband Úkraínu við Evrópusambandsríkin. Tugir þúsunda stuðningsmanna Júsjenko hafa mótmælt á götum Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu, síðan á sunnudaginn. Júsjenko, sem vill efla tengslin við Vesturlönd, ávarpaði fjöldann í gær og sagði að aðeins ein lausn kæmi til greina og hún væri að boða til nýrra kosninga. Hann vill að kosið verði aftur sem allra fyrst og hefur nefnt 12. desember sem hentuga dagsetningu. Júsjenko hvatti fólkið til að halda mótmælunum áfram allt þar til lausn fengist í málið. Janukovitsj, sem vill bæta samskiptin við Rússland í stað þess að efla tengslin við Vesturlönd, hefur gagnrýnt framferði Júsjenko í vikunni. Hann segir aðgerðir hans jafngilda tilraun til valdaráns.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×