Innlent

Ríkisvaldið neitar að borga

Ríkisvaldið stendur í skuld við sveitarfélögin en lætur eins og það sé statt í miðjum grínfarsa og neitar að borga. Þetta sagði formaður Samfylkingarinnar á Alþingi í dag í umræðum um skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga.  Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði ríkisstjórn og Alþingi hafa á liðnum árum ítrekað breytt lögum sem rýri fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna. Hann tíndi til nokkur dæmi og sagði svo að ríkisvaldið standi í skuld við sveitarfélögin en lætur eins og það sé statt í miðju leikriti eftir Dario Fo og argi bara: „Við borgum ekki, við borgum ekki!“ Árni Magnússon félagsmálaráðherra vísaði þessum orðum Össurar á bug. Hann sagði stuðninginn og viðbótarframlög hlaupa á milljörðum króna, rakti þau ítarlega og sagði síðan að ekki sé hægt að stökkva til þess að endurskoða tekjustofna sveitarfélaganna á nokkurra ára fresti og bæta við milljörðum króna í hvert sinn. Ríki og sveitarfélög verði að hafa reglulegt samráð í gagnsæjum farvegi. Yngsti þingmaður Framsóknar, Birkir Jón Jónsson, varði félagsmálaráðherra og sagði vilja til að gera betur. Hann setti þó fram þá viðvörun að aldrei muni ríkja fullt traust á milli ríkis og sveitarfélaga á meðan sveitarfélögin hafi ekki aðkomu að lagafrumvörpum sem varði fjárhagsleg samskipti þeirra við ríkið. Össur gaf lítið fyrir málflutning ráðherrans og sagði þetta vera gamalkunnugt plástrabox. Verðmæti plástranna væri 600 milljónir sem ekki er nóg að sögn Össurar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×