Erlent

Höfuðpaurinn yfirheyrður

Efnahagsbrotadeild norsku lögreglunnar hefur handtekið ellefu menn vegna gruns um stórfelld fjársvik í tengslum við píramídafyrirtækið The Five Percent Community, sem meðal annars hefur svikið fé af tugum Íslendinga. Höfuðpaur fyritækisins var yfirheyrður í Ósló í morgun. Jim Wolden, 31 árs höfuðpaur T5PC pýramýdafyrirtækisins, sem tugþúsundir Norðmanna og þúsundir annarra, þar á meðal Íslendinga, hafa verið blekktir af, kom frá Spáni til Noregs í morgun þar sem hann var yfirheyrður vegna málsins, en það er stærsta fjársvikamál sem komið hefur upp í Noregi. Talið er að fyrirtækið hafi svikið sem samsvarar um 11 milljörðum íslenskra króna af þátttakendum og hluthöfum. Búist er við að yfirheyrslur yfir Wolden verði í dag og næstu daga, en ellefu menn hafa þegar verið handteknir vegna málsins. Pýramýdafyrirtækið var lýst gjaldþrota fyrir skemmstu, en áform höfðu verið um að setja það á norskan markað vegna umfangsmikillar starfi þess, meðal annars stóð til að stofna flugfélag í nafni þess. Wolden hafði flúið til Spánar í kjölfar gjaldþrotsins. TIl stóð að hann kæmi til til Noregs í gær, og beið fjöldi blaða- og fréttamanna eftir honum á Gardermoen-flugvelli. Hann kvaðst hins vegar hafa misst af flugvélinni frá Spáni og mætti síðan skyndilega í yfirheyrslu til lögreglunnar í morgun, eftir að hafa ekið í bíl frá Kaupmannahöfn til Oslóar. Tugir Íslendinga er á lista sem birtur hefur verið í norskum fjölmiðlum yfir þá sem voru blekktir í pýramídasvindlinu, en um fjörutíu þúsund nöfn eru á listanum, þar á meðal mörg norsk stórfyrirtæki. Fjölmargir Íslendingar eru meðal fólks sem svindlað var á í mesta píramídahneyksli sem upp hefur komið í Noregi. Höfuðpaurarnir höfðu yfir tíu milljarða íslenskra króna upp úr krafsinu. Eins og sprinkle network frá Svíþjóð, sem teygði anga sína hingað til lands, byggði T5PC á beinni sölu á allskonar varningi, og menn þurftu að kaupa sig inn í fyrirtækið. Kaupa hlutabréf í því. Uppgangurinn var mikill og það leið talsverður tími áður en menn áttuðu sig á því að það var lögð meiri áhersla á að fá nýja og nýja hluthafa, en að koma vörunum til þeirra sem þegar höfðu borgað sitt gjald. Og svo kom í ljós að þetta var allt saman svindl, sem teygði sig frá Noregi út um allan heim, meðal annars til Íslands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×