Erlent

Vill afplána dóminn í Serbíu

Hæstiréttur í Svíþjóð staðfesti í morgun lífstíðardóm yfir morðingja Önnu Lindh, sem var utanríkisráðherra Svíþjóðar. Talið er að hann vilji afplána dóminn í Serbíu. Mijailo Mijailovic fór fram á að fá vægari dóm á grundvelli þess að hann væri ósakhæfur, en hann heldur því fram að Jesú Kristur hafi talað til sín og sagt sér að fremja morðið. Hæstiréttur viðurkenndi að Mijailovic væri geðsjúkur og hafi hugsanlega ekki haft stjórn á sjálfum sér þegar hann framdi morðið, væru kringumstæðurnar engu að síður slíkar að rétt væri að hann sæti ævilangt í fangelsi. Nú er búist við því að Mijailovic, sem er af serbnesku bergi brotinn, biðji um að fá að sitja af sér dóminn í Serbíu. Að sögn óttast hann hefndaraðgerðir í sænsku fangelsi, en gæti verið tekið sem hetju í Serbíu, þar sem Lindh var óvinsæl sökum stuðnings við loftárásir NATO á Belgrað árið 1999. Auk lífstíðardómsins var Mijailovic dæmdur til að greiða sonum Önnu Lindh hundrað þúsund sænskar krónur í skaðabætur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×