Erlent

Berst fyrir pólitísku lífi sínu

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, berst fyrir pólitísku lífi sínu eftir að hafa rekið fjölmarga ráðherra úr stjórn sinni í gær. Hann segist nú tilneyddur að reyna myndun samsteypustjórnar með Verkamannaflokknum. Sharon rak ráðherra Shinui-flokksins úr stjórn sinni í gær, vegna andstöðu þingmanna flokksins við fjárlagafrumvarp stjórnarinnar. Þeir felldu frumvarpið við fyrstu umræðu í þinginu, þar sem þeim líkaði ekki við fjárframlög til trúarhópa. Shinui-flokkurinn stendur meðal annars fyrir aðskilnað ríkis og kirkju. Fyrir vikið nýtur hann aðeins stuðnings fjörutíu af 120 þingmönnum á ísraelska þinginu. Hermt er að Sharon hafi skipulagt uppákomuna svo að Likud-flokkurinn neyddist til að samþykkja samsteypustjórn með Verkamannaflokknum, sem er að líkindum eina leiðin fyrir Sharon til að tryggja framgang hugmynda um brotthvarf frá Gasa-ströndinni.  Um fátt annað var að velja fyrir Sharon en að ræða við Verkamannaflokkinn eða hætta á nýjar þingkosningar. Þegar í gær lýsti Sharon því yfir, að kosningar þjónuðu ekki hagsmunum Ísraels eins og er, en þær gætu valdið miklum töfum á fyrirætluðu brotthvarfi frá Gasa-ströndinni og hluta Vesturbakkans. Sharon segist ætla halda við þær fyrirætlanir, en til stendur að fjarlægja tuttugu og eina landnemabyggð frá Gasa og fjórar af hundrað og tuttugu frá Vesturbakkanum. Því sest Sharon að líkindum að samningaborði með fulltrúum Verkamannaflokksins með Shimon Perez í broddi fylkingar. Verkamannaflokkurinn hefur þegar lýst áhuga á að taka þátt í samsteypu- eða þjóðstjórn, en stjórnmálaskýrendur segja Sharon þó þurfa að gæta þess að æsa ekki þá samherja sína í Likud-flokknum sem lengt eru til hægri, en þeim er meinilla við Perez þar sem að hann var reiðubúinn að gefa eftir land í friðarviðræðum við Palestínumenn. Innan Verkamannaflokksins heyrast einnig efasemdarraddir. Til að mynda er mikil andstaða við fyrirætlaðan niðurskurð í velferðarkerfinu. Því er ljóst að þrátt fyrir vilja leiðtoga bæði Likud-flokksins og Verkamannaflokksins gæti reynst flókið að fá flokksmenn til að samþykkja þjóðstjórn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×