Erlent

Stjórnarkreppa í vændum?

Stjórnarkreppa blasir við í Ísrael takist Ariel Sharon ekki að mynda þjóðstjórn hið fyrsta. Sharon rak í gærkvöldi fjölda ráðherra úr stjórninni. Uppþotið í gær kom ekki endilega á óvart, enda var búist við útspili frá Ariel Sharon til þess að hann gæti styrkt stöðu sína og tryggt framgang áætlana um brotthvarf frá Gasa-ströndinni og hluta Vesturbakkans. Þegar þingmenn Shinui-flokksins felldu fjárlagafrumvarp stjórnarinnar þó að flokkurinn ætti hlut að henni, rak Sharon ráðherra flokksins og sat eftir með stuðning eins þriðja af þingheimi. Shinui-flokkurinn er hliðhollur brotthvarfshugmyndunum og sömu sögu er að segja innan Verkamannaflokksins, en Sharon hyggst ræða við forystumenn hans um myndun þjóðstjórnar. Meginmarkmið þeirrar stjórnar yrði að tryggja brotthvarfið, en takist ekki samkomulag um stjórnina verður að efna til nýrra kosninga. Þær gætu kostað Sharon starfið og tafið mjög fyrir því að landnemabyggðir gyðinga á Gasa-ströndinni verði fjarlægðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×