Erlent

Nýjar kosningar engin lausn

Nýjar kosningar í Úkraínu eða endurtekning eru engin lausn, að mati Pútíns Rússlandsforseta, sem virðist ákveðinn í að halda nánu sambandi við Úkraínu. Engin lausn hefur enn fundist á deilum um forsetakosningarnar í landinu. Síðdegis flaug Leonid Kuchma, fráfarandi forseti Úkraínu, til Moskvu til skrafs og ráðagerða við Vladímír Pútín, forseta Rússlands. Pútín hefur stutt Viktor Janúkóvítsj, eins og Kuchma. Hann lýsti því yfir efasemdum um að nýjar kosningar eða endurtekning leysti vandann, og sagði hægt að halda endalausar kosningar þangað til flokkarnir fengju niðurstöður sem þeir sættu sig við. Bush Bandaríkjaforseti var á öðru máli, og lagði til nú síðdegis að erlend ríki skiptu sér ekki af nýjum kosningum í Úkraínu. Hæstiréttur Úkraínu kannar enn ásakanir um kosningasvindl og er búist við niðurstöðu á morgun. Að þeirri niðurstöðu fenginni hyggjast þingmenn taka til umfjöllunar hvort nauðsynlegt sé að gera breytingar á kosningalöggjöf landsins, svo hægt verði að kjósa á ný. Andófsmenn bíða þess með óþreyju að fá botn í málið, en á meðan óvissa ríkir halda þeir kyrru fyrir í frosti og kulda í miðborg Kænugarðs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×