Erlent

Vilja Annan burt

Krafist er afsagnar Kofis Annans, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Bandarískir íhaldsmenn segja hann bera ábyrgð á hneykslismálum vegna áætlunar samtakanna um olíu fyrir matvæli í Írak, og nauðsynlegt sé að hann víki svo að unnt sé að hreinsa til í óreiðunni. Eitt meginverkefni Kofis Annans síðan að hann tók við embætti framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna hefur verið að hreinsa þar til, draga úr skrifræði og spillingu. En nú er hann sjálfur í miðju hneykslismáls sem tengist syni hans og gæti kostað hann starfið. Í vikunni var greint frá því að Kojo Annan, sonur framkvæmdastjórans, starfaði fyrir svissneskt fyrirtæki sem hafði umsjón með áætlun Sameinuðu þjóðanna um olíu fyrir matvæli í Írak. Kojo starfaði þó í Vestur-Afríku og ekki í Írak. Þessar fregnir verða væntanlega olía á eld gagnrýnenda Annans, sem segja hann einnig bera ábyrgð á því að Saddam Hússein tókst að stela milljörðum dollara frá áætluninni. Yfirmenn rannsóknar á málinu segja það best fyrir alla aðila að Annan segi af sér nú þegar. Hann hafi skipað fólk sem veri ábyrgð á miklu hneyksli og nú þurfi allir að fá tíma til þess að átta sig á stöðunni. Talsmenn Sameinuðu Þjóðanna segja hins vegar enga aðildarþjóð hafa farið fram á afsögn Annans. Öll umræða sé ef hinu góðpa, en Annan muni eftir sem áður halda áfram starfi sínu næstu tvö árin. Gagnrýnin er ekki síst sögð til marks um þá óvild sem margir bandarískir íhaldsmenn bera í gerð Annans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×