Erlent

Morðingi Lindh er ekki geðveikur

Morðingi Önnu Lindh, fyrrverandi utanríkisráðherra Svíþjóðar, verður að sitja af sér lífstíðarfangelsisdóm samkvæmt dómi Hæstaréttar Svíþjóðar. Þar með sneri Hæstiréttur við dómi undirréttar sem hafði dæmt hinn 25 ára Mijailo Mijailovic ósakhæfan og því bæri að vista hann á geðsjúkrahúsi en ekki í fangelsi. Mijailovic myrti Lindh þann 10. september í fyrra. Hann játaði að hafa ráðist á hana með hnífi en sagðist ekki hafa ætlað að drepa hana. Raddir í höfði hans hefðu hins vegar sagt honum að gera það. Í dómi Hæstaréttar segir að þó að Mijailovic eigi við sálræna erfiðleika að etja geti hann ekki talist geðveikur. Hæstiréttur hafnaði enn fremur kröfu verjenda um að Mijailovic yrði dæmdur fyrir manndráp af gáleysi en ekki morð að yfirlögðu ráði. Mikael Nilsson, lögmaður Mijailovic, sagði í gær að skjólstæðingur hans hefði farið fram á að fá að afplána dóminn í Serbíu-Svartfjallalandi en hann er serbneskur ríkisborgari. Talið er að Mijailovic óttist að verða fyrir einelti annarra sænskra fanga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×