Erlent

Óvissa fyrir botni Miðjarðarhafs

Mikil óvissa ríkir um framtíðina í Mið-Austurlöndum. Framboð Marwan Barghuti hefur gjörbreytt landslaginu í palestínsku forsetakosningunum og Ariel Sharon rær lífróður að því að mynda nýja ríkisstjórn í stað þeirrar sem rann út í sandinn vegna deilna um fjárlögin. Barghuti er í ísraelsku fangelsi og ekki útlit fyrir að hann sleppi þaðan því hann afplánar fimm lífstíðardóma. Hann er þó mjög vinsæll meðal palestínskrar alþýðu og talinn líklegastur til að veita Mahmud Abbas, formanni PLO, keppni um forsetaembættið. Hann verður að há kosningabaráttuna úr fangelsi og stjórna þaðan líka ef hann nær kjöri. Kjör hans þýddi að öllum líkindum að ekkert yrði úr samningaviðræðum við Ísrael. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, missti síðustu samherja sína úr ríkisstjórn þegar hann rak ráðherra Shinui úr stjórn eftir að þeir greiddu atkvæði gegn fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar. Sharon reynir nú að fá helsta stjórnarandstöðuflokkinn, Verkalýðsflokkinn, og flokka strangtrúaðra gyðinga til að mynda nýja ríkisstjórn með sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×