Erlent

Spennan í Úkraínu fer vaxandi

Óvissa ríkir enn í Úkraínu um niðurstöðu Hæstaréttar sem fjallar um ásakanir um kosningasvik. Spennan í landinu fer vaxandi og óttast margir að óeirðir brjótist út.  Hæstiréttur Úkraínu hefur ekki enn komist að niðurstöðu í málinu en hennar er þó vænst á næstu klukkustundum. Mótmælendur, sem haldið hafa til í miðborg Kænugarðs, virðast orðnir þreyttir og hefur fækkað verulega í hópi þeirra. Alexander Kwasniewsky, forseti Póllands, kveðst hafa af því miklar áhyggjur að til átaka komi eftir því sem andleg og líkamleg þreyta segir meira til sín. Taugaspennan í landinu segir meðal annars til sín í því að fólk hefur nánast gert áhlaup á banka og tekið þar út allt sparifé sitt. Almennt virðist ríkja eining um að kjósa verði á ný en deilt er um hvort að það eigi að endurtaka síðustu umferð forsetakosninganna eða efna til nýrra kosninga. Nýjar kosningar þýddu að þeir sem buðu sig fram síðast mættu ekki gera það á ný. Þó að úrskurðar Hæstaréttar sé beðið með óþreyju er talið ólíklegt að hún verði til þess að leysa deiluna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×