Erlent

Úkraínsku kosningarnar ógiltar

Kjósa verður aftur milli Viktors Janúkovitsj forsætisráðherra og Viktors Júsjenkó, fyrrverandi forsætisráðherra, um hvor þeirra verður næsti forseti Úkraínu. Þetta eru fyrirmæli hæstaréttar Úkraínu sem ógilti í gær forsetakosningarnar sem fóru fram 21. nóvember. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að mikið hefði verið um kosningasvindl og varð því við beiðni stjórnarandstöðunnar um að þær yrðu ógiltar. Dómurinn fyrirskipaði einnig að seinni umferð forsetakosninganna skyldi endurtekin ekki síðar en 26. desember. Mikil fagnaðarlæti brutust út meðal stuðningsmanna Júsjenkó þegar hæstiréttur kvað upp dóm sinn. Fólkið, sem hafði sumt hvert verið á götum Kænugarðs í nær tvær vikur, klöppuðu, föðmuðust og hrópuðu af gleði. Yfirkjörstjórn fékk á baukinn í dómsorðinu. "Gjörðir og ákvarðanir yfirkjörstjórnar um úrslitin í seinni umferð forsetakosninganna voru ólöglegar," sagði í niðurstöðu hæstaréttar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×