Erlent

Kosningarnar verði endurteknar

Hæstiréttur Úkraínu ógilti síðdegis úrslit forsetakosninganna í landinu. Endurtaka verður kosningarnar innan þriggja vikna. Ákvörðun Hæstaréttar um að ógilda kosningarnar er sigur Viktors Júsjenkos og stjórnarandstöðunnar, en rétturinn felldi einnig úr gildi niðurstöðu kjörstjórnar að Viktor Janúkovítsj hefði borið sigur úr bítum. Deilan um kosningarnar er þó ekki endanlega til lykta leidd því að í dómi Hæstaréttar er ekki tilgreint hvort að endurtaka á kosningarnar eða efna til nýrra kosninga - en það er lykilatriði. Kjósa verður fyrir 26. desember, hvor leiðin sem valin verður. Mótmælendur, sem haldið hafa til í miðborg Kænugarðs, fögnuðu innilega eftir að fregnir bárust af niðurstöðu réttarins. Þeir vilja að kosningarnar verði endurteknar svo að þeirra maður, Júsjenko, geti boðið sig fram á ný. Leóníd Kútshma, fráfarandi forseti, er höfuðpaurinn í þeim hópi stjórnarliða sem stóðu á bak við framboð Viktors Janúkovítsj forsætisráðherra. Innan þess hóps eru menn sagðir fúsir að fórna Janúkovítsj og vilja nýjar kosningar - sem þýddi að hvorugur frambjóðandinn gæti boðið sig fram á ný. Engin viðbrögð hafa borist frá Kútshma og Janúkovítsj við niðurstöðu Hæstaréttar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×