Innlent

Handteknir vegna húsbrotsins

Lögreglan í Reykjavík hefur nú haft hendur í hári hluta þess hóps sem grunaður eru um að hafa misþyrmt ungum manni í íbúð í Logalandi í Fossvogi í Reykjavík í nótt. Talið er að árásarmennirnir hafi verið sjö til átta talsins en þeir voru vopnaðir haglabyssu og bareflum og hleyptu að minnsta kosti tveimur skotum af haglabyssunni í gegnum hurð. Ungt par var í íbúðinni og er pilturinn handleggsbrotinn og með skurði á höfði eftir árásina en hann var laminn með kylfu eða hamri. Hann var fluttur á slysadeild en stúlkan er hins vegar óslösuð. Vopnuð sérsveit lögreglunnar í Reykjavík var kölluð út en þegar hún kom að voru árásarmennirnir horfnir af vettvangi. Lögreglan hefur í dag haft hendur í hári flestra þeirra sem grunaðir eru um árásina og hafa skýrslur verið teknar af þeim síðdegis. Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn sagði í samtali við fréttastofu að ekkert væri enn hægt að fullyrða um tilefni árásarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×