Erlent

Fangaskipti Ísraela og Egypta

Ísraelar og Egyptar skiptust á föngum á landamærum ríkjanna í dag. Ísraelar létu sex egypska námsmenn lausa úr haldi í skiptum fyrir mann sem setið hefur í egypsku fangelsi síðustu átta ár, grunaður um njósnir. Samningurinn þykir til marks um viðleitni til að bæta samskipti þjóðanna.  Egypskur dómstóll dæmdi Ísraelann Azzam Azzam til fimmtán ára fangelsisvistar fyrir njósnir árið 1997. Hann rak þá verksmiðju í Egyptalandi. Azzam, sem haldið hefur fram sakleysi sínum, var meðal annars gefið að sök að hafa notað ósýnilegt blek til að koma upplýsingum á framfæri. Viðbrögðin létu ekki á sér standa þegar fregnir af frelsun Azzams bárust til fjölskyldu hans og vina. Í skiptum fyrir Azzam fengu Egyptar sex námsmenn sem handteknir voru í Ísrael í ágúst síðastliðnum. Þeir höfðu farið ólöglega inn í landið og voru handteknir vegna gruns um að þeir ætluðu að ræna ísraelskum hermanni og skriðdreka. Fréttaskýrendur segja samninginn til marks um viðleitni til að bæta samkipti þjóðanna. Forseti Egyptalands, Hosni Mubarak, er enda tekinn til við að hrósa Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, og mæla með því að Palestínumenn reyni að friðmælast við Ísraela. Þar þykir bleik brugðið en samskipti Ísraels og Egyptalands hafa verið afar stirð síðustu fjögur ár vegna átakanna milli Ísraela og Palestínumanna.    



Fleiri fréttir

Sjá meira


×