Erlent

Gengið í lið með óvininum

Gíslatökur og mannrán eru daglegt brauð í löndum þar sem ástand er ótryggt. Erfitt er að gera sér í hugarlund álagið sem fórnarlömb mannræningja eru undir en í sumum tilvikum snúast þau á sveif með föngurum sínum. Sinnaskipti af þessu tagi ganga undir nafninu Stokkhólmsheilkennið. Árið 1973 var bankarán framið í Stokkhólmi þar sem nokkrir viðskiptavinir voru teknir í gíslingu. Þegar lögreglan reyndi að bjarga gíslunum streittust þeir á móti og þegar þeir höfðu verið frelsaðir neituðu þeir að bera vitni gegn ræningjunum. Frægasta dæmið um manneskju hrjáða af þessu heilkenni er Patty Hearst, dóttir bandaríska fjölmiðlakóngsins Randolphs Hearst. Árið 1974 var henni rænt af pólitískum öfgamönnum og fyrr en varði tók hún að fremja með þeim vopnuð bankarán. Á þessu ári var ítalskri konu sem starfaði fyrir hjálparsamtök rænt í Írak og þegar hún var látin laus sagði hún ræningjana hafa verið í fullum rétti til að nema sig á brott. Geðlæknar hafa rannsakað Stokkhólmsheilkennið og komist að þeirri niðurstöðu að um varnarviðbrögð sé að ræða. Til að sleppa við ofbeldi reyna fórnarlömb mannræningja gjarnan að samsama sig með þeim eða höfða til þeirra. Allt vinarþel sem fangarinn sýnir er oftúlkað og björgunartilraunir eru álitnar ógnun þar sem gíslinn óttast að slasast eða deyja fari þær úrskeiðis. Þessi einkenni kvikna vitanlega þegar fólk er undir miklu tilfinningalegu álagi og segja sérfræðingar þeim svipa til þeirra sem fórnarlömb heimilisofbeldis sýna þegar þau afsaka iðju kvalara sinna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×