Innlent

Getur ekki sinnt lögbundnum verkum

Ríkisendurskoðun hefur greint þrjár meginástæður rekstrar- og fjárhagsvanda Náttúrufræðistofnunar undanfarin þrjú ár. Þar kemur fram að helstu ástæður fjárhagsvanda stofnunarinnar séu að framlög ríkisins til hennar hafi ekki fylgt verðþróun, sértekjur hennar hafi lækkað verulega. Einnig hafi laun og húsaleiga hækkað. Því nægja árlegar fjárveitingar ekki fyrir rekstri, auk þess sem stofnunin hefur safnað upp skuldum vegna rekstrarhalla. Því leggur Ríkisendurskoðun til að stjórnvöld lagi starfsemi Náttúrufræðistofnunar að fjárhagsramma með verulegum niðurskurði eða auki fjárveitingar til hennar. Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar, segir stofnunina hafa mjög umfangsmikið verksvið og að kröfur um upplýsingar um náttúruna séu alltaf að aukast. Sem dæmi um lögbundin verkefni sem ekki hafi verið hægt að sinna með fullnægjandi hætti sé að kortleggja náttúru Íslands. Einnig hafi ekki verið hægt að fylgjast með stofnum refa og minka á Íslandi. Hvað varðar lækkun sértekna segir Jón að stór hluti þeirra komi frá öðrum ríkisstofnunum og ráðuneytum og því sé erfitt að hafa stjórn á slíkum tekjum . Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra segist ekki hafa séð skýrslu Ríkisendurskoðunar og vill því ekki tjá sig um hana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×