Erlent

Blair styður Annan

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur lýst stuðningi við Kofi Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Bandarísk þingnefnd hefur gagnrýnt Annan harðlega og krafist þess að hann segi af sér. Bandaríska þingnefndin er að rannsaka „olíu fyrir mat hneykslið“ svokallaða í Írak. Samkvæmt sérstakri samþykkt Sameinuðu þjóðanna var Írökum heimilt að selja visst magn af olíu til þess að fjármagna kaup á mat, lyfjum og öðrum nauðsynjum. Síðan Saddam Hussein var steypt af stóli, og gögn um málið í Írak komu upp á yfirborðið, hafa komið fram ásakanir um stórfellda spillingu og brot á reglum þeim sem Sameinuðu þjóðirnar settu um viðskiptin. Því er meðal annars haldið fram að með mútum hafi Saddam getað dregið sér yfir tíu milljarða króna af peningunum sem fengust fyrir olíuna. Bandaríska þingnefndin, sem er að rannsaka málið, hefur gagnrýnt Kofi Annan harkalega og krafist þess að hann segi af sér. George Bush, forseti Bandaríkjanna, hefur vikið sér undan því að svara því beint hvort hann vilji að framkvæmdastjórinn víki. Hann hefur aðeins sagt að hann vilji að málið verði rannsakað niður í kjölinn. Rússar, Frakkar, Kínverjar og Þjóðverjar hafa lýst yfir stuðningi við Annan, og það hefur Tony Blair nú einnig gert. Á blaðamannafundi í Downing-stræti 10 sagði breski forsætisráðherrann að það væri hans skoðun að framkvæmdastjórinn sinnti starfi sínu vel við erfiðar aðstæður. „Ég hef oft haft ástæðu til þess að vera þakklátur Kofi Annan fyrir forystu hans og ég vona að hann fái að starfa í friði,“ sagði Blair og bætti því við að sér fyndist gagnrýni á Annan óréttmæt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×