Innlent

Ók í tvígang á lögreglubíl

Kona á fertugsaldri ók tvívegis á lögreglubíl á fullri ferð og stakk síðan af síðastliðið mánudagskvöld. Lögreglumennirnir kenndu eymsla í hálsi og var lögreglubíllinn óökufær, hann var nokkuð klesstur auk þess sem fram- og hliðarlíknarbelgir í bílnum blésu út. Maður, sem er forstöðumaður trúfélags, bað lögregluna um aðstoð vegna konunnar sem veitti honum eftirför rétt fyrir klukkan tíu um kvöldið. Konan reyndi nokkrum sinnum að keyra í veg fyrir manninn en hún ásakar hann um að hafa lagt á sig álög. Við bílastæðið hjá heimilum eldri borgara, við Árskóga í Breiðholti, kom lögreglan þangað sem konan hafði veitt manninum eftirför. Þar ók konan á lögreglubílinn í tvígang og stakk síðan af en lögreglumennirnir sátu eftir í óökufærum bílnum. Strax hófst leit að konunni með aðstoð lögreglunnar í Reykjavík. Konan skildi bílinn eftir í Breiðholti og fannst hún rétt fyrir miðnætti þar sem hún vitjaði bílsins en lögreglan sat fyrir henni á ómerktum bíl. Þótti með ólíkindum að bíll konunnar hefði verið ökufær eftir aðfarir hennar. Ekki er vitað hvað konunni gekk til en hún er ekki grunuð um að hafa verið undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×