Skoðun

Voru stríðsfangarnir pyntaðir?

Sindri Freysson rithöfundur hefur sent frá sér sögulega skáldsögu, Flóttann, sem gerist á hernámsárunum á Íslandi í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar. Bókin segir sögu þýsks manns sem hér er búsettur þegar Bretar hernema landið í maí 1940. Handtaka hans er yfirvofandi þegar hann afræður að reyna að komast undan og heim til Þýskalands. Honum tekst að fara huldu höfðu í eitt ár og fær þá húsaskjól hjá öðrum Þjóðverjum á Íslandi og fólki sem tengsl hefur við þá. Hlutskipti Þjóðverja á Íslandi á hernámsárunum hefur ekki verið mikið rætt fram að þessu. Að sumu leyti hefur það verið feimnismál. Bókin vekur ýmsar spurningar um þetta tímabil og örlög Þjóðverjanna. Í bókinni er meðal annars komið inn á það að breska hernámsliðið hafi beitt þá þvingunum og jafnvel pyntingum. Getur það verið rétt eða er þetta tómur skáldskapur? Skoðanir á Vísi leituðu til höfundarins og vildu forvitnast meira um þetta mál og bakgrunn sögunnar í heild. Við byrjuðum á því að spyrja hvort pyntingar sem sagt er frá í bókinni eigi sér sögulega fyrirmynd. Eru heimildir fyrir því að stríðsfangar á Íslandi hafi verið pyntaðir? Langt og fróðlegt svar Sindra fer hér á eftir:

"Spurningin er góð en á það sammerkt með mörgum öðrum góðum spurningum að henni er vandsvarað. Ástæður þess eru ýmsar: A. Fáir eru eftirlifandi til frásagnar um þessa atburði. B. Þeir sem tóku þátt í slíku sem gerendur voru og eru jafnan ófúsir að tjá sig um þátttöku sína í slíku athæfi. C. Þolendur harðræðis eru sömuleiðis oft á tíðum fámálir um reynslu sína og þar að auki uppgötvuðu menn þegar styrjöldinni lauk að það var lítill hljómgrunnur fyrir frásagnir af óhæfuverkum sigurvegaranna.

Það er hægðarleikur að segja; svona lagað viðgengst í stríði og eðilegt að ætla að hið sama hafi gilt um framferði bandamanna í síðari heimsstyrjöld. Það er nóg að líta til nýliðinna atburða sem Bandaríkjamenn eru ábyrgir fyrir í Abu Grahib-fangelsinu í Írak eða Guantanamo-herstöðinni á Kúbu; ef ríki sem vill teljast til þróaðs lýðræðisríkis og boðbera mannréttinda beitir slíkum aðferðum í byrjun 21. aldar, því skyldu Bretar og Bandaríkjamenn ekki hafa beitt samsvarandi aðferðum, og jafnvel gengið lengra, um miðja 20. öld? Er ekki helber barnaskapur að ætlast til annars?

Menn virðast telja það réttlætanlegt og raunar nauðsynlegt í stríði að reka illt út með illu, að beita meðulum harðstjóranna sem barist er við – og þá vaknar sú spurning hvort mikill munur sé á stríðandi aðilum þegar öllu er á botninn hvolft? Vandamálið við slíkan rökstuðning varðandi meint óhæfuverk bandamanna í seinni heimsstyrjöld er hins vegar sá að hann byggir á huglægu mati, líkindum, en ekki skjalfestum gögnum nema í örfáum tilvikum. Þá meina ég Ísland, því að til eru vitnisburðir um margvíslegar harðneskjulegar aðferðir sem bandamenn beittu í stríðsátökunum í Evrópu og Asíu, þótt sumir þeirra hafi einungis verið gerðar opinberir á seinustu árum. Þá er ekki verið að tala um sprengjuregnið á óbreytta borgara í Dresden, Düsseldorf og víðar, hvað þá kjarnorkurárásir á Japan, aðeins gróf mannréttindabrot í hefðbundnum skilningi gegn óvininum, bæði meðan á baráttunni stóð og eftir að henni lauk.

Eins og kunnugt er gengu Sovétmenn mjög hart fram gegn þýskum herafla eftir uppgjöfina en Bandamenn beittu svo sem engum silkihönskum, a.m.k. ekki í fyrstu. Í u.þ.b. 200 fangabúðum sem notaðar voru í Þýskalandi til að vista Þjóðverja eftir stríðslok var aðbúnaður oft á tíðum mjög slæmur, matur skorinn við nögl og föt og ábreiður af skornum skammti. Sem dæmi má nefna um fangabúðir í Andernach, þar sem um 50 þúsund fangar á öllum aldri og báðum kynjum voru látnir sofa undir beru lofti, vanbúnir, í leðju og misjöfnum veðrum. Til er vætti um að fangarnir hafi neyðst til að tína gras og arfa og gera úr súpu til að seðja sárasta hungrið. Eisenhower, hershöfðingi, gerði það að dauðasök strax að uppgjöfinni lokinni að færa þýskum föngum matvæli. Kona að nafni Agnes Spira var skotin til bana fyrir þennan glæp í maílok 1945.

Annað sem þrengir að svörum við þessari spurningu er sú staðreynd að Bretar handtóku þorra Þjóðverja hérlendis á hernámsdaginn eða næstu daga á eftir, og það fólk var flutt tafarlaust til Englands þar sem yfirheyrslur yfir þeim fóru fram. Meðferð þeirra hérlendis var því gjarnan aðeins forleikur að því sem beið þeirra ytra. Varðandi fyrirmyndina að minni söguhetju, August Lehrmann, er það að segja að hann greindi dóttur sinni frá að hann hefði orðið fyrir harðræði af hendi Breta, án þess þó að fara nánar út í þá sálma. Ég leyfi mér að gera ráð fyrir að þar hafi hann verið að tala um mun verri meðferð en þorri fanga sætir almennt.

Margir Þjóðverjar og samherjar þeirra, sem lágu undir njósnagrun, voru fluttir í Camp O2O, sérstakt fangelsi skammt frá London sem var undir stjórn Robin William George Stephens, undirofursta. Séstakt í þeim skilningi m.a. að þar giltu ekki ákvæði Genfarsamningsins um meðhöndlun stríðsfanga – þar eð ákveðið var að skilgreina fangana þar ekki sem slíka - og Rauði krossinn eða aðrar óháðar eftirlitsstofnanir höfðu ekki aðgang að fangelsinu (svipaðar reglur gilda í dag um fangana í Gunantanamo). Á meðal fanga sem þurftu að dúsa í Camp O2O voru nokkrir Íslendingar, þar á meðal Guðbrandur Hlíðar, Sigurjón Jónsson, Jens B. Pálsson, Marel Magússon, Hallgrímur Dalberg, Magnús Guðbjörnsson og Sverrir Matthíasson. Stephens lét raunar svo um mælt að Magnús og Sverrir væru "óvenjulega greindir af Íslendingum að vera, en þó ekki ofgáfaðir..."! Hann lagði á það áherslu við menn sína, er önnuðust yfirheyrslur, að þeir ælu með sér ófrávíkjanlegt hatur í garð óvinarins. Knýja átti fram játningar eins fljótt og nokkur var kostur. Ummæli hans sjálfs um fangana sýna að hann fylgdi þessu boðorði út í æsar; mannfyrirlitning, fordómar og svívirðingar eru þar gegnumgangandi.

Fangar voru strípaðir við komu og leitað í hverju líkamsopi. Vörðum var skipað að svara í engu spurningum þeirra eða kvörtunum. Þeir hírðust síðan í klefa þangað til þeim var stillt upp andspænis þeim er önnuðust yfirheyrslur; röð af mönnum við borð. Þar stóðu fangar tímunum saman án þess að fá vatn né þurrt. Stephens kvaðst – að minnsta kosti í orði kveðnu - vera andsnúinn líkamlegu ofbeldi, þar eð hættan væri sú að upplýsingar sem fengjust með þeim hætti væru lakari en ella. Þá væri til lítils að "snúa" njósnurum með valdbeitingu. Þrátt fyrir þessa opinberu stefnu komu upp mál innan veggja stofnunarinnar er lutu að ofbeldi í garð fanga. Hins vegar var andlegt ofbeldi talið æskilegt og viðurkennt sem árangursrík aðferð; þannig var föngum meinað um svefn, þeir kældir niður, þeim var hótað aftöku, jafnvel dregnir út um miðja nótt og sagt að að henni væri komið eða þeim var ógnað með vist í Klefa fjórtán, sem var svo sem ekki mjög frábrugðinn öðrum klefum en var alræmdur í hópi fanga. Og það lá dauðadómur við njósnum, einsog fangar voru iðulega minntir á þegar reynt var að kreista úr þeim upplýsingar. Þetta var vægðarlaust ferli sálræns niðurbrots.

Stephens stýrði fangabúðum í Þýskalandi eftir stríð, m.a. í Bad Nenndorf, og var þá dreginn fyrir herrétt vegna ásakana fanga. Þeir sökuðu hann m.a. um að hafa verið sviptir klæðum, þeir sættu hótunum og voru beittir andlegum og líkamlegum pyntingum meðan á yfirheyrslum stóð, voru látnir sitja langtímum í einangrun án hreyfingar, þeir voru vistaðir í refsiklefum að ástæðulausu þar sem þeir voru m.a. strípaðir um hávetur og ísköldu vatni kastað þar inn, ásamt því að sæta árásum og misþyrmingum, þeir fengu lítið að borða og hverfandi læknisaðstoð, og dregið var von úr viti að láta þá lausa, þótt málsmeðferð væri lokið. Í sögu Camp O20, sem Oliver Hoare skráði, kemur fram að Stephens nefndi ákærendur sína fúlmenni, úrkynjaða og geðsjúklinga. Bretar sýknuðu hann af öllum ákærum.

Þá er kannski reynandi að skoða viðmót Breta gagnvart hinni hersetnu þjóð. Í vitnisburði manna sem unnu fyrir breska hernámsliðið má greina að þar viðgekkst hjá sumum einstaklingum hrottaskapur. Var slíkt að þeirra eigin frumkvæði eða að frumkvæði yfirmanna þeirra? Ef hið fyrra var rétt, var þá hrottaskap beitt með þöglu samþykki yfirmanna eða alfarið án þeirra vitundar? Hendrik Ottóson, sem vann fyrir hernámsliðið á stríðsárunum, lá um tíma undir grun um að vera viðriðinn hið svokallaða dreifibréfsmál. Yfirleitt fór hann varfærnum orðum um þá setuliðsmenn sem hann hafði kynni af, en í þetta skipti kvaðst hann hafa orðið fyrir því að breskur liðþjálfi heimsótti hann til að knýja fram játningu um þáttöku hans og "um leið og dátinn settist niður, leysti hann skammbyssu sína úr hylki, fitlaði eitthvað við öryggið [og] miðaði henni á mig." Hugðist Bretinn þannig ógna honum til að játa meinta sök sína.

Hendrik greindi frá því að hermenn hefðu framið mýmörg ódæðisverk á fólki án þess að upp kæmust og sagði að eftir komu Bandaríkjamanna hefðu margir Íslendingar vart þóst óhultir um líf sitt. Hann nefndi sem dæmi ítrekuð dæmi um nauðganir, m.a. þegar sex bandarískir hermenn nauðguðu konu að manni hennar ásjáandi, en þeir börðu hann fyrst og héldu honum síðan föstum meðan þeir svívirtu eiginkonu hans. Einnig þótti honum herinn á stundum sýna sökudólgum linkind, væru þeir yfirhöfuð dregnir fyrir rétt. "Enginn maður sem ekki hefir verið viðstaddur herréttarhöld hjá bandaríska hernum á Íslandi, getur ímyndað sér alla þá rangsleitni, sem þar fór fram í garð Íslendinga," sagði Hendrik. Annað sem honum fannst sérstaklega sláandi var þegar hermenn hófu fyrirvaralaus skothríð á fiskimenn sem stunduðu hrognkelsaveiðar við Skerjafjörð, þar eð þeir héldu ranglega að bátarnir væru innan bannsvæðis. Þá eru fjömörg tilfelli voðaskota, misþyrminga og átaka á milli hermanna og Íslendinga, oftast samfara áfengisneyslu og gleðskap sem fór herfilega úr böndunum. Þetta teljast þó ekki dæmi um skipulagt harðræði á hendur hersetinni þjóð. Þá var skotið á einhverja Íslendinga sem hlýddu ekki skipunum hermanna og lést a.m.k. einn piltur af þeim völdum. Það mun ekki heldur flokkast undir harðræði.

Bjarni Jónsson, læknir og fyrrum formaður félags þjóðernissinnaðra stúdenta í háskólanum, var einn þeirra Íslendinga sem hélt með Esju frá Norðurlöndunum haustið 1940, sk. Petsamofarar, og var hann handtekinn ásamt nokkrum öðrum Íslendingum við komuna til Reykjavíkur og fluttur til Englands. Hann var yfirheyrður við komuna til London og nokkrum sinnum síðar og voru yfirheyrendur yfirleitt með svarta hettu yfir höfði sér meðan á yfirheyrslunni stóð og aðeins tvær rifur fyrir augun. Líkamlegu ofbeldi var hins vegar ekki beitt í þessum tilvikum, aðeins hótunum og ógnunum. Til er þó átakanlegur vitnisburður um annað og er kunnasta dæmið um það Artic-málið svo kallaða:

Vorið 1942 voru skipverjar á Artic handteknir, en nokkrir þeirra höfðu í nýliðinni Spánarferð samþykkt að undangengnum þvingunum að taka við þýsku loftskeytatæki og senda Þjóðverjum veðurskeyti á leiðinni til Íslands. Skipstjórinn og loftskeytamaðurinn voru fluttir til Englands. Lést skipstjórinn á leiðinni þangað en loftskeytamaðurinn sat í bresku fangelsi þar til skömmu eftir stríðslok. Áhöfnin var síðan flutt í fangabúðir Breta á Kirkjusandi. Í Virkinu í norðri segir svo um þessa atburði:

"Skipsmenn mættu nú hinni hrakalegustu meðferð hjá hernum. Voru höfð yfir þeim miskunnarlaus réttarhöld með pyndingum og ógnunum, svo að með ólíkindum má teljast. Og sannleikurinn var sá, að Bretar komu fram í þessu máli sem fantar. Þeir misþyrmdu skipsmönnum með höggum og öðrum pyndingum, svo að við dauða lá, létu þá liggja sárþjáða í köldum og illa hirtum klefum, köstuðu í þá hundafæði, sem nokkrir þeirra gátu þó ekki neytt sökum vanlíðunar af áverkum. Allir urðu fangarnir meira eða minna veikir af hinni hrottalegu meðferð og illum aðbúnaði."

Artic-menn sendu Ólafi Thors, forsætisráðherra, skýrslu um reynslu sína, dagsetta 21. nóvember 1945. Þar segir m.a. frá yfirheyrslu yfir 1. stýrimanni, en hann þótti ekki veita fullnægjandi svör: "Voru tveir amerískir hermenn sitt hvoru megin við hann og börðu þeir hann, þar til hann hneig niður, en þeir reistu hann alltaf upp aftur og endurtókst þetta þrisvar sinnum í sama réttarhaldi. Var hann með stokkbólgið höfuð og marbletti hingað og þangað um líkamann, og varð að styðja hann úr réttarsalnum. Var hann síðan látinn í inn í kaldan hermannaskála og látinn vera þar næstu þrjá daga einn." Þess má geta að sumir þeirra sem þarna sættu harðræði áttu um sárt að binda alla ævi af þess sökum, bæði sálar- og líkamlega. Sjálfsvíg eins áhafnarmeðlima var meira að segja rakið til þessarar hörmulegu reynslu, þótt ómögulegt sé að sanna eða afsanna hvort sú hafi verið ástæðan. Það er hins vegar engin ástæða til að ætla að þeir Þjóðverjar sem Bretar eða Bandaríkjamenn klófestu og töldu háskalega eða handhafa dýrmætra upplýsinga, hafi fengið skárri meðferð eða af öðrum toga en þessir sjómenn fengu.

 Þessu til viðbótar má bæta að Bretar gripu oft freklega inn í íslensk réttar- og innanríkismál og eru fjölmörg dæmi um slíkt og sömuleiðis um árekstra á milli ólíks gildismats setuliðs og hinnar hersetnu þjóðar. Hér verður aðeins eitt dæmi nefnt. Hinn 25. febr. 1941 sendi Pétur Benediktsson, sendifulltrúi Íslands í London, bréf til utanríkisráðuneytisins er merkt er Algert trúnaðarmál, og ber undirtitilinn "Kvartanir frá bresku stjórninni í sambandi við hernámið." Þar segir í upphafi að hann hafi verið beðinn að koma til viðtals í Foreign Office og þar átt tal við Mr. Laurence Collier, forstjóra Norðurlanda-deildarinnar í Foreign Office og Sir John Dashwood, aðstoðarmann hans. "Mr. Collier kvaðst vilja skýra mér frá nokkrum atriðum í sambandi við ástandið á Íslandi, sem hefðu valdið mikilli óánægju hjá foringjum setuliðsins og öðrum breskum stjórnvöldum. Bað hann þó mig að vera þess fullvissan, að það væri einlægur vilji bresku stjórnarinnar að komast hjá að blanda sér í innanríkismál Íslands, eða nokkur þau mál, sem íslensk stjórnvöld gætu leyst úr, svo sem lofað hafi verið, er landið var hernumið. Hins vegar væru ýmis mál, er beinlínis snertu setuliðið, öryggi þess og sóma, þar sem svo sem gæti farið, að Bretar yrðu sjálfir að taka sér rétt sinn, ef Íslendingar sýndu ekki nægan vilja á að vernda hann." (leturbr. mín)

Collier nefndi síðan þrjú atriði, er hann vildi leggja sérstaka áherslu á. Tvö þeirra snertu framkomu "kommúnista" í garð setuliðsins, hið þriðja íslenska fiskimenn. Í lok bréfsins segir Pétur síðan: "Í framhaldi samtalsins ítrekaði Mr. Collier óánægju Breta með þann skort á samvinnu, sem setuliðið hefði orðið fyrir af hálfu lögreglustjórans í Reykjavík. Nefndi hann í því sambandi mál Íslendinganna tveggja, sem að sögn Mr. Colliers voru "staðnir að loftskeytasendingum"Það mál hefði verið miklu auðveldara viðfangs, ef breska herstjórnin hefði notið betri samvinnu frá lögreglustjórans hálfu. Mr. Collier sagði eitthvað á þessa leið: "Lögreglustjórinn í Reykjavík er maður, sem þér þekkið vafalaust miklu betur en ég geri. En ég vil segja það hreinskilnislega, að ég held að mörg þessara mála myndu ganga miklu betur, ef þið hefðuð annan lögreglustjóra í Reykjavík." (leturbr. mín) Bretar gerðu síðan ýmsar tilraunir til að koma lögreglustjóranum frá og var Roy Wise, yfirmaður njósnaþjónustu hersins, sérstaklega uppsigað við hann. Hafði þeim lent nokkrum sinnum saman, auk þess sem Wise átti það sammerkt með nokkrum öðrum yfirmönnum Breta að vera sakaður um hroka og yfirgang í samskiptum sínum við Íslendinga. Þegar ástandsmálið svokallaða kom upp sauð upp úr, enda þótti Wise að í skýrslunni um samskipti hermanna og íslenskra stúlkna og kvenna væri gróflega vegið að heiðri breska hersins. Fór hann þá með dylgjum á hendur lögreglustjóra, m.a. um faðerni hans og meintan stuðning við nasisma. Hinn 17. október 1941 sendir utanríkisráðuneytið svohljóðandi bréf til Péturs Benediktsonar: "Í tilefni sérstaklega af umræðum er farið hafa fram opinberlega nú nýlega um hið svonefnda "ástandsmál" hér á landi, hefir forsætisráðherra átt viðtöl við breska sendiherrann um leiðir til nauðsynlegrar samvinnu um hugsanleg ráð til úrbóta, og í því sambandi hefir forsætisráðherra sérstaklega vikið að því við sendiherrann, að hann telji, að framkoma yfirmanns bresku leynilögreglunnar hér, Major Wise, sé mjög óheppileg fyrir góða sambúð Breta og Íslendinga hér á þessu landi, og fært það dæmi því til sönnunar, að rangar upplýsingar berist til London um starfsemi íslenskra embættismanna." (leturbr. mín) Svo fór að lokum að Bretar sáu sig tilneydda, eftir ítrekuð mótmæli íslenskra stjórnvalda, að senda Wise úr landi. Aðrar tilraunir þeirra til að hafa afskipti af ákvörðunum stjórnvalda eða áhrif heppnuðust sumar hverjar betur, og má ef til vill þar fyrst nefna.komu Bandaríkjamanna.

Stríð særa fram verstu og bestu hliðar mannsins; grimmdina, græðgina, óttann, hjálpfýsina, samúðina. Þau eru nokkurs konar prófsteinn á mennsku okkar. Og það er ekkert gott við stríð, saklaust fólk missir ævinlega mest. Það felst mikil áskorun í að halda sönsum á blómatíma geðsýkinnar. Á slíkum stundum verða heilu þjóðirnar að takast á við hana á hverjum degi. Höfundur "sögulegrar skáldsögu" hlýtur alltaf að reyna að skilja liðna atburði nýjum skilningi. Annars er hann ekki að bæta neinu við, er aðeins þiggjandi að skilningi fyrri tíma. Sumir lesendur Flóttans hafa talað um "óhefðbundin söguskoðun" og "afhelgun" á hernáminu og hinni viðurkenndu afstöðu til hernámsliðsins, sem oft á tíðum einhver fortíðaljómi – nostalgía - hefur hvílt yfir. Ég er ánægður hafi það tekist, þótt ekki væri nema að litlu leyti, þrátt fyrir að það hafi ekki verið aðalviðfangsefni Flóttans. Framkoma Breta og síðar Bandaríkjamanna í garð okkar var ekki alltaf til fyrirmyndar og hafa Íslendingar kosið að líta framhjá mörgum hnökrum í samskiptum okkar við setuliðið í síðari heimsstyrjöld. Er verðugt og sjálfstætt rannsóknarefni að rannsaka þau mál með ítarlegum hætti".

gm@frettabladid.is




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×